155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[16:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að Ísland standi sig í þróunaraðstoð og veiti fjármagn í að aðstoða fólk sem stendur höllum fæti víða um heim, en það er þá líka þeim mun mikilvægara að það fjármagn nýtist sem best. Telur hæstv. ráðherra að við séum að nýta framlög okkar til þróunaraðstoðar eins vel og kostur er? Við viljum ekki að þessi framlög renni til spilltra stjórnvalda einhvers staðar eða jafnvel hryðjuverkasamtaka. Er nóg að gert til að tryggja að framlög Íslands, íslenskra skattgreiðenda, nýtist til að hjálpa því fólki sem er í mestri neyð og til að ná sem mestum árangri þar. Reyndar kom fram í andsvari hv. þm. Gísla Rafns Ólafssonar hér áðan að talsverður hluti af þróunaraðstoð Íslands væri stuðningur við hælisleitendur á Íslandi, en rannsóknir hafa sýnt og meira að segja hafa alþjóðleg hjálparsamtök bent á að það er oft hægt að aðstoða milli tífalt og hundraðfalt fleiri á nærsvæðum heldur en þegar þeir eru komnir til Vesturlanda fyrir sama pening, eftir því hversu mikinn stuðning menn fá í hverju landi og auðvitað hversu miklar væntingarnar eru um stuðning í nágrannalöndum, ef svo má segja, á nærsvæðunum. En miðum við lægri töluna, tífalt meiri áhrif með stuðningi á nærsvæðum, telur hæstv. ráðherra ekki að það eigi í auknum mæli að reyna að hjálpa fleirum með því að beina stuðningnum að nærsvæðunum og þeim löndum sem eru í vanda við að taka á móti hælisleitendum?