155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[16:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í því og er þeirrar skoðunar að þeir fjármunir sem fara í málaflokkinn í dag séu allt of miklir og það er ekki góð fjárfesting. Það eru miklir fjármunir sem fara í þetta og ef við myndum ekki bara spara heldur nýta þessa fjármuni þá væri þeim betur varið væru þeir settir í verkefni og innviði til þess að fólk sem hingað flytur, þá ekki bara hælisleitendur eða kvótaflóttafólk heldur einfaldlega útlendingar sem koma hingað til að lifa og starfa, hafi tök og færi á því að aðlagast íslensku samfélagi, læra íslenska tungu o.s.frv. Hins vegar að hluti af þeim fjármunum sem væri hægt að spara eða færa aftur niður í eitthvað nálægt því sem áður var færi inn á þau svæði þar sem fólkið býr í gegnum þróunarsamvinnu, bæði tvíhliða og í gegnum stofnanir þar sem gríðarlega mikilvæg vinna á sér stað, hvort sem það varðar aðgengi að menntun, aðgengi að hreinu vatni og jafnvel það styðja við litla matvælaframleiðendur í héruðum (Forseti hringir.) til að gera máltíðir fyrir skólabörn þannig að þau mæti í skólann o.s.frv. Það er betri ráðstöfun á þessu fjármagni og skilar meiri árangri.