155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[16:51]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í þingmálaskrá þessa þings sem er rétt hafið kemur fram að eina frumvarp utanríkisráðherra er frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þ.e. bókun 35. Þar segir:

„Með frumvarpinu er ætlunin að gera nauðsynlegar breytingar til þess að bæta innleiðingu bókunar 35 við EES-samninginn og tryggja fulla virkni hans hér á landi í þágu einstaklinga og lögaðila.“

Ég vissi ekki að þetta væru nauðsynlegar breytingar. EES-samningurinn er 30 ára gamall. Ég vissi ekki heldur að það væri ekki búið að innleiða hann. Hvernig á að bæta innleiðingu hans ef hann var aldrei innleiddur? Það var tekin upp samræmisskýring í 3. gr. EES-laganna og það hefur dugað okkur í 30 ár. Það sem verið er að gera hér, verði þetta að lögum, stenst klárlega ekki stjórnarskrána. Af hverju ekki? Það er vegna þess að almenn lög geta ekki kveðið á um rétthæð almennra laga. Svo einfalt er það. Það er ekki lögskýringarregla heldur að kveða á um það í lögum hver rétthæð almennra laga er. Það þarf að standa í stjórnarskránni ef það á að segja að lög með ákveðinn uppruna, þ.e. upprunnin í Brussel, séu rétthærri en önnur lög. Svo einfalt er það. Það þarf ekki annað en að lesa almenna lögfræði Ármanns Snævarrs og fleiri fræðimanna til að sjá að rétthæð laga er ekki lögskýring. Það er ekki einu sinni túlkunarregla. Val á réttarheimild og rétthæð réttarheimilda er ekki lögskýring, svo mikið er víst.

Spurningin er þessi: Hefur þetta ekki gengið vel síðastliðin 30 ár, EES-samningurinn? Það vissu allir af þessu vandamáli þegar bókun 35 var ekki löggilt á sínum tíma fyrir 30 árum. Til hvers er verið að gera þetta? Það vita allir að það er mekanismi fyrir hendi ef einstaklingar fá ekki rétt samkvæmt EES-samningnum. Það er líka í ríkjum Evrópusambandsins. Það eru til frægir dómar í Evrópusambandinu eins og Frankovich-dómurinn o.fl. þar sem einstaklingar (Forseti hringir.) fá skaðabætur og líka íslenskir dómar. Til hvers í ósköpunum er verið að gera þetta, koma með þetta núna 30 árum seinna (Forseti hringir.) og ætla að setja þetta í lög? Hvar eru rætur þess að krefjast þess að þetta verði sett í lög?