155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[16:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður er kominn hér í umræðu um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2025 til að fjalla um löngu samþykkt lög sem vörðuðu tilskipun um hinn svokallaða þriðja orkupakka. (Gripið fram í.) Eins gaman og mér fannst í því máli þá sé ég ekki hver tengingin er við þessa umræðu hér né heldur við frumvarp sem ekki hefur komið fram og hefur ekkert með fjárlagaumræðu að gera. Ég held að það fari betur á því að ræða það mál bara ef það kemst á dagskrá í þinginu. Ég heyri ekki betur en að hv. þingmaður sé að leggja það til að einstaklingar þurfi að fara í dýran lögfræðikostnað og fara í dómsmál til að sækja sér þau réttindi sem þeir eiga að ganga að sem vísum og eiga inni samkvæmt EES-samningnum og aðrir borgarar í hinum löndunum ganga að sem vísum og þurfa ekki að gera. Ég er bara einfaldlega ósammála því (Gripið fram í.) að það sé ekkert mikilvægi í því að laga það og mér þykir eðlilegt og sanngjarnt að borgarar sem eiga réttindi samkvæmt þessum samningi fái að njóta þeirra.