155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[18:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég ætla ekki að eyða miklu meiri tíma í umræðu um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Ég held að við þurfum bara að taka hann sérstaklega fyrir í umræðum hér í þingsal eða í umhverfis- og samgöngunefnd til að kafa almennilega ofan í hana. En ég staldra samt við það að hæstv. ráðherra bendir ítrekað á að mikið og náið samtal hafi átt sér stað við atvinnulífið og þá verð ég að vekja athygli á því að ekkert slíkt samtal átti sér stað við frjáls félagasamtök á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála. Þetta tel ég vera ákveðinn galla á vinnunni sem vonandi verður lagað í framkvæmdinni. Mig langar hins vegar að spyrja út í fréttir sem bárust af flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í sumar. Þar var ályktað að endurskoða þyrfti alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Þetta vakti kannski mesta athygli þegar einn þingmaður flokksins hljóp fram í Morgunblaðinu og túlkaði þetta sem svo að Ísland ætti að segja sig frá Parísarsamkomulaginu. Mér vitanlega hefur ekkert ríki stigið það skref nema Bandaríkin þegar Trump stýrði þar. Sem betur fer var undið ofan af því í valdatíð Biden-stjórnarinnar, og hæstv. ráðherra mætti síðan í viðtal og sagði að þetta væri ekki það sem til stæði.

Mig langar hins vegar að spyrja hver meiningin er þá með þessari ályktun flokksins vegna þess að alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði loftslagsmála eru í grófum dráttum tvær. Það er annars vegar Parísarsamningurinn gagnvart Sameinuðu þjóðunum og hins vegar er það samkomulagið við Evrópusambandið. Ekki getur verið að flokkur ráðherrans ætli að fara að raska því samvinnuverkefni sem er lykill að árangri og líka að því að tæknirisar og grænt fjármagn sæki til Íslands í þá möguleika sem hér eru á grunni þeirrar festu (Forseti hringir.) sem sameiginlegt regluverk innan EES-svæðisins veitir fjárfestum.