155. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2024.

ummæli vararíkissaksóknara og afskipti ráðherra af brottvísun .

[15:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þetta var eitt af alla vega tveimur ef ekki þremur undarlegustu svörum sem ég hef fengið í þessum sal frá ráðherra. Ráðherrann byrjaði á því að kvarta yfir því að hafa engan tíma og er svo bara eingöngu að reyna að eyða tímanum með því að endurtaka það sem ég sagði áðan og það sem við sáum í fréttum fyrir mörgum vikum síðan. Þetta er furðulegt þannig að ég skal hætta að spyrja út í þetta í bili en ég mun gera það aftur síðar af því að ég vil gjarnan fá svar við seinni spurningunni, varðandi óvænta ákvörðun hæstv. ráðherra í nótt. Telur hæstv. ráðherra sig hafa lagaheimild til að taka slíka ákvörðun með þessum hætti og hefur ráðherrann að eigin mati möguleika á að skipta sér af rannsóknum mála, niðurstöðu dómstóla eða vinnu lögreglu o.s.frv.? Telur ráðherrann sig hafa heimild? Hann mætti þá gjarnan útskýra í hverju hún felst. Hvers vegna skipti hæstv. ráðherra um skoðun og tók þessa ákvörðun í nótt? Var það vegna hótana samstarfsflokksins, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, um stjórnarslit ella?