155. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2024.

rekstur Sjúkrahússins á Akureyri.

[15:12]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Fyrir hálfu ári átti ég orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra um grafalvarlega stöðu Sjúkrahússins á Akureyri. Það var eftir fund þingmanna kjördæmisins með starfsmönnum sjúkrahússins þar sem var dregin upp afar dökk framtíðarmynd og ég býst við að öllum þingmönnum hafi verið brugðið að heyra enda starfsemin ein mikilvægasta stoð risastórs landsvæðis á Norðausturlandi. Sjúkrahúsið á Akureyri, til að halda því til haga, er eina sjúkrahúsið utan höfuðborgarsvæðisins sem veitir sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Þjónustan hefur verið að dragast saman á undanförnum misserum. Sérfræðiþjónusta sem var í boði er ekki lengur til staðar. Við getum nefnt erfðaráðgjöf, lungnalækningar, augnlækningar, húðlækningar og innkirtlalækningar auk þess sem aðrar sérfræðigreinar eru í mikilli hættu og þar má nefna geðlækningar, barna- og unglingageðlækningar, skurðlækningar og svo mætti halda áfram. Árlega þurfa nú 22.000 manns af upptökusvæði Sjúkrahússins á Akureyri þess vegna að leita sér lækninga til Reykjavíkur þar sem þjónusta er einungis í boði á höfuðborgarsvæðinu. Það væri auðvitað miklu skynsamlegra að tryggja reksturinn og fá lækna norður í stað þess að senda fleiri þúsund manns suður vegna inngripa sem vel hægt væri að gera norður í landi, minnka bruðl hins opinbera og spara sjúklingum auðvitað himinháar upphæðir vegna uppihalds, gistingar eða vinnutaps.

Í nýjum fjárlögum kemur skýrt fram að því fer víðs fjarri að verið sé að tryggja þetta. Það er sífellt verið að bæta aðeins uppsafnaðan halla með fjárauka en það vantar 800–1000 millj. kr. inn í grunninn bara til að hægt sé að halda í horfinu. Að óbreyttu heldur því varnarbarátta sjúkrahússins áfram og enn skerðast lífsgæði úti á landsbyggðinni. Ég spyr því ráðherra hvort ekki standi til að breyta þessu eða hvort ráðherra ætli virkilega að láta fjara undan starfsemi eina sjúkrahússins utan höfuðborgarsvæðisins á sinni vakt.