155. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2024.

viðbragðsáætlanir og brunavarnir í samgöngumannvirkjum.

[15:44]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að það var hrollvekjandi að sjá í þessari frétt hversu nálægt hurðin skall hælunum í þessum viðburði. En svo ég vindi mér beint í fyrirspurnir þingmannsins þá er það svo að viðbragðsáætlanir eru unnar í upphafi þegar jarðgöng eru opnuð. Þær hafa verið uppfærðar á fimm ára fresti. Annars vegar er þá um að ræða viðbragðsáætlanir sem eru sameiginlegar áætlanir með slökkviliðunum og svo innanhússáætlun um það hvernig Vegagerðin vinnur með viðkomandi slökkviliði.

Þingmaðurinn spyr síðan um búnaðinn og súrefnisbirgðir og eftirlit af hálfu ríkisins. Þá er því til að svara að ábyrgð á því að slökkviliðsæfingar séu haldnar, m.a. við jarðgöng, liggur hjá sveitarfélögum í samræmi við lög um brunavarnir. Slökkvilið á hverjum stað ber ábyrgð á því að móta brunavarnaáætlun þar sem m.a. er tekið á brunavörnum í jarðgöngum, þ.m.t. búnaði og nauðsynlegri þjálfun slökkviliðsmanna. HMS hefur eftirlit með og samþykkir brunavarnaáætlanir. HMS er samræmingar- og leiðbeiningaraðili með eftirlitsskyldunni, er sem sagt með eftirlitsskyldu. Öll slökkvilið landsins voru síðast tekin út af stofnuninni árið 2022 og skýrsla gefin út í framhaldinu. Þar var m.a. skoðað hvort brunavarnaáætlanir væru til staðar og hvort unnið væri eftir þeim. Vegagerðin hefur á síðustu árum hvatt til þess að haldnar séu slökkviliðsæfingar í jarðgöngum og auk þess hefur Vegagerðin fjárfest í æfingabúnaði, reykvél sem slökkviliðið notar við æfingar. Það hefur gengið vel og auðveldað mjög æfingarnar sem hafa verið haldnar í Norðfjarðargöngum, Hvalfjarðargöngum, Strákagöngum, Fáskrúðsfjarðargöngum og Almannaskarðsgöngum. En ég vil geta þess hér í lok míns fyrra svars að að sögn hv. þm. Bjarna Jónssonar, sem er formaður umhverfis- og samgöngunefndar, þá stendur til að taka þetta fyrir á fundi nefndarinnar og ég held að það sé mjög mikilvægt að það fáist ráðrúm til að fara yfir stöðuna.