155. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2024.

Störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í upphafi þingvetrar höfum við Píratar ákveðið að beina sjónum fram á við. Eftir að hafa átt fullt í fangi síðastliðin þrjú ár við að reyna að beina sitjandi ríkisstjórn frá villu síns vegar með misgóðum árangri er nú upp runninn hinn svokallaði kosningavetur þar sem tækifæri nálgast til að sýna þjóðinni í verki þá framtíð sem við getum boðið upp á. En það eru ekki bara komandi kosningar sem knýja okkur til að tala um það sem við viljum sjá umfram það sem við viljum ekki sjá. Óvissa og óöryggi sem magnast hafa upp í samfélaginu, sem sitjandi ríkisstjórn hefur því miður lagt of mikið á vogarskálarnar til að ýta undir fremur en að eyða, eru orðin að svo alvarlegu vandamáli að við eigum ekki annan kost en að taka saman höndum og reyna eftir fremsta megni að finna hinn sameiginlega hljómgrunn hvar sem hann kann að vera. Hvernig gerum við það? Jú, með samkennd og skilningi, með því að leitast við að skilja, leyfa hvert öðru að njóta vafans, forðast að dæma og reyna, aftur, að skilja.

Atburðir síðustu daga hafa alls ekki gert þetta verkefni auðvelt í mínum huga. En ég er að reyna að skilja. Ég skil það að fólk óttist hið ókunna, það er mannlegt og eðlilegt. Það er hins vegar í verkahring okkar sem förum með vald, okkar sem hefur verið treyst fyrir ábyrgð, okkar sem höldum á hljóðnemanum að eyða ótta en ekki ýta undir hann.

Forseti. Við berum ábyrgð og okkur ber að fara með vald okkar af ábyrgð. Ábyrgir stjórnmálamenn nota ekki ótta fólks sér til framdráttar heldur leggja sig fram við að finna leiðir til þess að eyða honum og tryggja með því öruggt samfélag fyrir allt fólk. Það ætlum við Píratar að gera.