155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

Skyldur stjórnvalda samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

[10:45]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði hér áðan þá er barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna landslög. Við eigum að vinna hagsmunamat í málefnum barna. Öll stjórnvöld eiga að gera það. Allir sem vinna með málefni barna eiga að gera það. Það er algerlega skýrt kveðið á um það. Það er hins vegar svo að það er ekki löng reynsla af þessu. Þess vegna er mikilvægt þegar upp koma mál eins og þetta, eða önnur sambærileg sem hafa komið upp, að við rýnum það af hverju ólík stjórnvöld eru ekki að gera það, að við förum ofan í málin. Ég hef ekki efnislegar upplýsingar um þetta einstaka mál sem hér um ræðir, hvort það hafi verið gert og með hvaða hætti en það er tilefni til að skoða það.

Við skulum ekki gera lítið úr barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með því að tala um að lagaákvæðin sem þar eru og eru lögfest í íslensk lög, ekki bara fullgilt heldur líka lögfest, eigi ekki að standa jafnfætis öðrum lögum í landinu og það eigi ekki að taka tillit til þeirra. Ég tek því undir með hv. þingmanni, það þarf að skoða þetta. (Forseti hringir.) Við ætlum að gera það og fara betur ofan í þessi mál. Það er full ástæða og tilefni til.