155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

staða sérskóla fyrir fötluð börn.

[10:55]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir og segja að ég tek undir með henni varðandi það að þetta eru okkar viðkvæmustu hópar og við eigum öll að láta okkur þá varða. Þess vegna þakka ég þingmanninum fyrir að taka þetta mál upp og vil jafnframt segja, og taka undir með þingmanninum, að þetta á að vera málefni okkar ríkisvaldsins líka þó að þetta sé á hendi sveitarfélaganna. Þegar kemur að þessu höfum við auðvitað verið að fylgjast með þessari umræðu í ráðuneytinu. Við höfum verið að fylgjast með þessum málum. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að þetta skólastig er hjá sveitarfélögunum og mikilvægt að þau bregðist við. Við höfum fengið fregnir af því að þau séu að vinna í því. Hins vegar þurfum við líka í öllu sem við gerum að skoða hvort lausnin til lengri tíma sé sú að stofna fleiri sérskóla eða að stíga fastar inn í skólakerfið með ólíkum kerfum og samstarfi milli kerfa. Ég er þeirrar skoðunar að til lengri tíma sé það lausnin sem eigi að vinna að.

Hv. þingmaður nefnir heilbrigðiskerfið sérstaklega. Við erum með á þingmálaskrá núna í vetur lög um inngildandi menntun og skólaþjónustu þar sem við erum í umtalsverðu samtali við heilbrigðiskerfið, m.a. um það hvernig aðkoma þess verður að skólastarfi, þjónustu við skólana o.s.frv. Það er mikilvægt að bregðast við með þessum tvíþætta hætti. Við erum að fylgjast með þessu máli. Við munum setja okkur dýpra inn í það. Það þarf að finna lausn á þessu á vettvangi sveitarfélaganna og í samstarfi við sveitarfélögin en til lengri tíma litið þurfum við að skoða skólakerfið okkar og hvernig við getum þjónustað það betur þannig að það verði inngildandi. Þá þurfa kerfi ríkisins sannarlega að koma fastar inn og af meira afli. Ég er sammála þingmanninum í því.