155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

staða sérskóla fyrir fötluð börn.

[10:59]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn spyr sérstaklega: Hvað veldur þessari aukningu? Við sjáum þessa aukningu líka inni í framhaldsskólakerfinu. Við sjáum þetta í grunnskólakerfinu. Ég held að þarna séu margir samverkandi þættir sem búa að baki. En fyrst og síðast snúa þeir að því að við þurfum að stíga fyrr inn. Við þurfum að stíga fyrr inn með ólík kerfi, aðstoða skólana við að takast á við það að sinna ólíkum nemendum og finna þeim ólíkan farveg. Til þess þarf ólík kerfi inn í skólana, til þess að aðstoða við það. Til þess að það gerist þurfa ólík kerfi að stíga fyrr inn og það er meginlínan í nýjum lögum, um inngildandi menntun og skólaþjónustu, sem eru á dagskrá hér á þessu haustþingi. Það þarf að grípa þannig inn í hlutina að börnin þurfi ekki í sama mæli þyngri þjónustu eins og er að birtast okkur, m.a. þarna og í framhaldsskólakerfinu. En við þurfum líka að eiga samtal um það hvort við þurfum meiri samvinnu á milli sveitarfélaganna þegar kemur að rekstri þyngri úrræða. Og við erum m.a. í því eins og til að mynda í málefnum barna með fjölþættan vanda.

(Forseti hringir.) Ég þakka þingmanninum fyrir að taka þetta hér upp, þetta er mikilvægt mál. Við eigum að láta okkur þetta varða, ríkið, þó að þetta sé á hendi sveitarfélaganna.