155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

námsgögn.

222. mál
[11:39]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um námsgögn en um er að ræða ný heildarlög um námsgögn sem koma í stað gildandi laga um námsgögn, nr. 71/2007. Frumvarpið er liður í innleiðingu menntastefnu til ársins 2030 en fjölbreytt námsgögn eru ein af megináherslum menntastefnunnar. Þetta frumvarp felur í sér umtalsverðar breytingar á útgáfu námsgagna og sumir hafa talað um að þær séu líklega þær mestu sem hafa orðið í áratugi, nái frumvarpið fram að ganga á Alþingi.

Undanfarin ár hefur átt sér stað töluverð undirbúningsvinna og aðdragandi að framlagningu þessa frumvarps sem tengist stefnumótun í málefnum námsgagna. Árið 2017 setti þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, sem reyndar situr hér í salnum, hæstv. ráðherra Lilja Alfreðsdóttir, af stað vinnu með það að markmiði að endurskoða fyrirkomulag námsgagnagerðar í leik-, grunn- og framhaldsskólum, þar á meðal var kortlögð staða námsgagna hér á landi og í nágrannaríkjum og samráð haft við ýmsa haghafa. Í framhaldi af þeirri vinnu var ákveðið að koma þessari endurskoðun í farveg innleiðingar menntastefnu frá 2021–2030 sem við erum að vinna eftir.

Í fyrstu aðgerðaáætlun menntastefnunnar kemur fram að aðgengi að vönduðu námsefni sé eitt lykilatriði gæðamenntunar. Meðal annars þurfi að auka gæði, fjölbreytni og aðgengi að náms- og kennslugögnum fyrir nemendur á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi með áherslu á stafræn námsgögn á íslensku, táknmáli og efni fyrir nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Til að styðja við þessar aðgerðir til innleiðingar menntastefnu og þessarar fyrstu aðgerðaáætlunar menntastefnu, þar sem þetta var eitt af meginaðgerðunum, skipaði sá sem hér stendur starfshóp um námsgögn í upphafi þessa árs. Hlutverk starfshópsins var að greina áskoranir og tækifæri vegna fyrirhugaðrar lagasetningar um námsgögn með það að leiðarljósi að auka aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum fyrir öll skólastig. Hópnum var ætlað að fjalla um aðgengi að námsgögnum, gæði og gerð þeirra, m.a. í ljósi nýjustu rannsókna.

Starfshópinn skipuðu fulltrúar frá Samtökum menntatæknifyrirtækja, Menntamálastofnun, sem síðar varð Miðstöð menntunar og skólaþjónustu eða þann 1. apríl á þessu ári, Skólameistarafélagi Íslands, Kennarasambandi Íslands, Samfési, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Hagþenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, Félagi íslenskra bókaútgefenda, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum áhugafólks um skólaþróun, ásamt fulltrúum sem skipaðir voru án tilnefningar en þar á meðal var hv. þm. Berglind Ósk Guðmundsdóttir, sem reyndar er búin að biðja um andsvar við ráðherra að lokinni þessari ræðu og ég reikna með að flytji líka ræðu í dag. Starfshópurinn stóð m.a. að málþingi um námsgögn sem var vel sótt og vann tillögur sem verið er að hrinda í framkvæmd með frumvarp því sem ég mæli hér fyrir.

Virðulegi forseti. Eins og áður hefur komið fram felur frumvarpið í sér ný heildarlög um námsgögn, en lögin eru frá árinu 2007. Uppbygging frumvarpsins tekur að nokkru leyti mið af lögum um námsgögn en í því felast nokkur mikilvæg nýmæli og breytingar sem ég ætla hér að fara yfir. Þar ber helst að nefna að í frumvarpinu er lagt til að öllum börnum að 18 ára aldri standi til boða gjaldfrjáls námsgögn í leik-, grunn- og framhaldsskólum á Íslandi. Markmið með gjaldfrjálsum námsgögnum er að tryggja jöfn tækifæri allra barna til náms, sem er jafnframt í samræmi við áherslur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og við eitt af markmiðum gildandi menntastefnu. Hingað til hafa gjaldfrjáls námsgögn einvörðungu átt við skyldunám í grunnskóla en í frumvarpinu felst sú grundvallarbreyting að aðgangur að gjaldfrjálsum námsgögnum verður einnig tryggður á leikskóla- og framhaldsskólastigi. Þetta var ein af tillögum fyrrgreinds starfshóps um námsgögn en um er að ræða stórt verkefni sem útskýrt er í frumvarpinu að verður innleitt í áföngum og lokið í ársbyrjun 2029. Gert er ráð fyrir að innleiðing hefjist strax á nýju ári verði þetta frumvarp samþykkt og við erum með fjármagn áætlað í fyrsta fasa þeirrar innleiðingar.

Þetta er enn eitt skrefið í því að tryggja öllum börnunum okkar jöfn tækifæri í skólakerfinu okkar. Það hlýtur að vera leiðarstef allra þeirra sem hafa hag barnanna okkar fyrir brjósti að tryggja að kostnaður verði aldrei steinn í götu þeirra þegar kemur að menntun og þetta er í raun meðal þeirra grundvallarréttinda sem barnasáttmálinn kveður á um. Risavaxið framfaraskref var tekið með því að tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir og er sá sem hér stendur stoltur af því að halda áfram á þeirri pólitísku braut að tryggja að efnahagur komi ekki niður á skólagöngu barna.

Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að þegar við rýnum tölfræði sem tengist menntun þá sjáum við að það forskot er horfið sem Ísland hafði, m.a. á nokkur önnur Norðurlönd, þegar kemur að því hvaða áhrif félagslegur bakgrunnur hefur á nám. Við erum komin á sama stað og önnur Norðurlönd þegar kemur að því að félagslegur bakgrunnur er að hafa meiri áhrif heldur en hann hefur haft í gegnum árin, þannig að svona aðgerðir eru gríðarlega mikilvægar.

Í frumvarpinu er jafnframt lögð til sú breyting frá gildandi lögum að draga fram áherslu á nýsköpun í námsgagnagerð, gæði, framboð og fjölbreytileika. Í samræmi við framangreindar áherslur er m.a. lagt til að þau námsgögn sem njóta stuðnings námsgagnasjóðs eða þróunarsjóðs námsgagna skuli vera vönduð, í samræmi við aðalnámskrár og styðja við fjölbreyttar þarfir barna og ungmenna.

Þá er í frumvarpinu fjallað um heimild ráðherra til að setja gæðaviðmið um gerð og útgáfu námsgagna sem njóta stuðnings hins opinbera, m.a. í gegnum umrædda sjóði. Viðmiðunum er ætlað að vera tæki til að efla gæði námsgagna fyrir námsgagnahöfunda, útgefendur á markaði sem og þá sem úthluta fé úr opinberum sjóðum til námsefnisgerðar. Gert er ráð fyrir að slík viðmið verði ávallt unnin í breiðu samráði ráðuneytis og ólíkra haghafa.

Þá er í frumvarpinu lagt til það nýmæli að birt verði útgáfuáætlun námsgagna til fimm ára í senn. Útgáfuáætlun fyrir námsgögn var ein af tillögum starfshóps um námsgögn og horfði hópurinn m.a. til þess að áætlunin myndi tryggja enn frekar að fjármagn til námsefnisgerðar sé nýtt með fullnægjandi hætti. Mikilvægt er að útgáfuáætlun sé unnin af fjölbreyttum hópi hagsmunaaðila og í virku samtali við vettvang, þ.e. skólasamfélagið, bæði kennara og nemendur og aðra sem innan skólakerfisins starfa.

Í frumvarpinu er fjallað um tvo sjóði, námsgagnasjóð og þróunarsjóð námsgagna, sem nú eru starfræktir á grundvelli laga um námsgögn. Námsgagnasjóður hefur það hlutverk að leggja grunnskólum til fé til námsgagnakaupa í því augnamiði að auka val þeirra um námsgögn. Í frumvarpinu eru lagðar til ákveðnar breytingar á skipulagi sjóðsins þar sem ábyrgð á starfrækslu hans verður hjá mennta- og barnamálaráðherra í stað þess að yfir sjóðnum sé sérstök stjórn.

Þá er í frumvarpinu fjallað um þróunarsjóð námsgagna sem hefur það hlutverk að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð, þýðingu og útgáfu námsgagna fyrir leik-, grunn,- framhalds- og tónlistarskóla. Frumvarpið felur í sér það nýmæli að hlutverk sjóðsins verði einnig að stuðla að þýðingu námsgagna yfir á íslenska tungu. Þá er að finna það nýmæli að tónlistarskólar geti sótt um stuðning úr þróunarsjóði námsgagna, sem ekki hefur verið hingað til. Þetta er í samræmi við þau almennu nýmæli sem felast í frumvarpinu að löggjöf nái til útgáfu námsgagna fyrir tónlistarskóla og þýðingar námsgagna, eins og áður sagði. Þá felast m.a. í frumvarpinu þær breytingar að stjórnarmönnum í þróunarsjóði námsgagna er fjölgað úr fimm í sjö.

Samhliða þessum breytingum er gert ráð fyrir verulegri eflingu námsgagnasjóðs og þróunarsjóðs námsgagna með auknu fjármagni strax á næsta ári. Í fjárlagafrumvarpi yfirstandandi árs og áætlunum mennta- og barnamálaráðuneytisins er gert ráð fyrir því að bæði námsgagnasjóður og þróunarsjóður námsgagna muni sem hluti af þessari eflingu tvöfaldast á næsta ári frá þeim fjárveitingum sem eru nú á yfirstandandi ári.

Virðulegi forseti. Ég bind vonir við að þetta frumvarp efli námsgagnaútgáfu, gæði námsgagna og þar með skólakerfið í heild til framtíðar. Það er sannarlega hluti af stórum kerfisbreytingum í menntakerfinu sem ég hef lagt áherslu á sem mennta- og barnamálaráðherra en er líka hluti af menntastefnu til ársins 2030 og beint framhald breytinga sem voru samþykktar hér á Alþingi á síðasta þingi þegar ný þjónustustofnun, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, var sett á fót en sú stofnun tók formlega til starfa 1. apríl á þessu ári. Á næstu vikum munu fleiri frumvörp sem eru liður í þeim umfangsmiklu breytingum líta dagsins ljós og verða lögð fram hér á Alþingi. Ein af undirstöðum þess frumvarps sem hér er mælt fyrir er samstarf, samvinna og samtal milli ólíkra hagaðila. Menntakerfið okkar býr yfir ótrúlegum mannauði þvert á öll stig og undirstaða breytinga til framfara er að þær breytingar skili sér í auknum stuðningi og verkfærum til þeirra sem starfa innan skólanna og til barnanna sjálfra sem eru nemendur í skólakerfinu. Lykillinn að þessu og til þess að það gangi eftir er aukið samtal og samvinna ólíkra aðila, bæði við vinnslu frumvarpa eins og hér eru en líka í eftirfylgninni varðandi útgáfuáætlun, varðandi gæðaviðmið og ólíka þætti.

Ég hlakka til að leggja fleiri frumvörp fram hér á þingi vegna þess að að einhverju leyti hanga þau saman sem ein heild, bæði frumvarp um inngildandi menntun og skólaþjónustu en líka frumvarp um samræmt námsmat í grunnskólum.

Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir með frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess.

Að lokinni þessari umræðu legg ég síðan til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og til 2. umræðu.