155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

námsgögn.

222. mál
[11:52]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og vil segja að það er gert ráð fyrir því við innleiðingu á þessum breytingum að þær gerist í þrepum til ársins 2029. Markmiðið er að byrja á yngstu bekkjum og byrja á kjarnagreinum eins og íslensku og stærðfræði, byrja kannski á ákveðnum áföngum. Það er það sem við gerum ráð fyrir á næsta ári. Það er líka gríðarlega mikilvægt í þeirri vinnu að það fari fram samtal við framhaldsskólakerfið. Skólarnir eru ólíkir og þeir myndu hugsanlega vilja leysa þetta með ólíkum hætti. Ólíkir skólar myndu vilja leysa þetta með ólíkum hætti. Maður hefur heyrt hugmyndir eins og að nýta bókasöfn í ákveðnum skólum og aðrar útfærslur annars staðar. Það mun þurfa, sem hluti af innleiðingunni, samtal við skólana um fyrsta áfangann, og það erum við að setja af stað núna, sem við gerum ráð fyrir að verði íslenska, stærðfræði og þessar kjarnagreinar eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Í framhaldinu þarf að eiga sér stað samtal við skólana um frekari útfærslur vegna þess að við viljum alls ekki, og það er kjarninn í frumvarpinu, að þetta sé takmarkandi fyrir kennarana eða fyrir skólana.

En við viljum ekki víkja frá því grundvallarsjónarmiði að markmiðið sé að árið 2029 séu námsgögn í framhaldsskólum gjaldfrjáls fyrir yngri en 18 ára. Það er algjörlega kjarnamarkmiðið með frumvarpinu en það þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki og þess vegna er líka þessi tímalína til nokkurra ára. Við getum ekki — eins og við kannski gerðum með skólamáltíðirnar sem er einfaldari aðgerð að einhverju leyti en þó hafa komið upp umræður um það — stigið inn og sagt: Heyrðu, við ætlum að gera þetta og það tekur gildi þennan dag. Þetta samtal og samvinna við grasrótina og feltið þarf að eiga sér stað, sem hv. þingmaður vitnar til að sé hætta á að við gerum ekki og það komi misbrestir. Það viljum við ekki.