155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

námsgögn.

222. mál
[11:56]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni aftur fyrir og segja að á sama hátt og við viljum ekki teppa útgáfu námsgagna ef kennarar sjá sér hag í því að gefa út námsgögn, og þess vegna þurfi samtal, þá á það við um stafræna hlutann. Af því að kveðið er á um gæðaviðmið og útgáfuáætlanir sem á að vinna í samtali við hagaðila þá geri ég fastlega ráð fyrir að það með hvaða hætti við viljum leggja áhersluna hverju sinni inn til þróunarsjóðs námsgagna og inn til námsgagnasjóðs sé akkúrat vettvangurinn til að leggja sérstaklega áherslu á stafræna námsgagnaútgáfu. Það mætti vel skerpa það í nefndaráliti eða í meðförum þingsins.

Þegar kemur að tónlistarskólum þá held ég að einhvers misskilnings gæti vegna þess að við erum ekki að leggja það til með þessu frumvarpi að námsgögn í tónlistarskólum verði gjaldfrjáls. Í 4. gr. segir að í leik-, grunn- og framhaldsskólum skuli vera gjaldfrjáls námsgögn til 18 ára aldurs. En það er verið að gera ráð fyrir því að þróunarsjóður námsgagna geti úthlutað til verkefna á tónlistarskólastiginu. Við höfum ekki verið að styrkja með beinum hætti námsgagnagerð fyrir tónlistarskóla, þannig að í rauninni erum við akkúrat að hvetja einkaaðila og feltið til að sækja um í þróunarsjóð námsgagna til útgáfu námsgagna á tónlistarskólastigi. Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að þau verði gjaldfrjáls en það á við um leik-, grunn- og framhaldsskóla.