155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

námsgögn.

222. mál
[12:59]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og með lögfestingu barnasáttmálans þá erum við að sjá hann innleiðast dag frá degi. Það að stíga hér skref í gjaldfrjálsum námsgögnum í framhaldsskóla er mikilvægt skref og ég hef farið yfir af hverju það er mikilvægt. Það að tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir er mikilvægt skref. Hvort tveggja er einmitt atriði sem m.a. velferðarvaktin og fleiri aðilar hafa bent á að sé mikilvægt til þess að draga úr fjölda þeirra barna sem búa við fátækt á Íslandi. Ég hef farið yfir það í mínu máli af hverju þetta tekur ekki gildi strax við gildistöku frumvarpsins. Það stafar m.a. af því — ef hv. þingmaður hefði hlustað á framsöguræðu mína sem hún hefur auðsjáanlega ekki gert — að við þurfum að eiga samtal við framhaldsskólana um með hvaða hætti við sjáum þetta innleiðast. Skólarnir vilja sjá þetta gerast með ólíkum hætti, það eru ólíkar aðstæður og það þarf að tryggja að við getum mætt því og hvernig við byggjum kerfið upp. Það er ástæðan fyrir því að þetta á að gerast í skrefum eins og rakið er í frumvarpinu.

Síðan vil ég bara ítreka aftur það sem ég sagði áðan að ég og hv. þingmaður erum 100% sammála um mikilvægi þess að tryggja félagslegan jöfnuð í skólakerfinu. Við eigum að stíga inn í það með félagslegum hætti og þess vegna hef ég verið mikill og ríkur stuðningsmaður þess að námsgögn séu gerð gjaldfrjáls í skrefum en líka að skólamáltíðir séu gjaldfrjálsar. Hvort tveggja stór skref og góð fjárfesting inn í framtíðina.