155. löggjafarþing — 8. fundur,  19. sept. 2024.

námsgögn.

222. mál
[13:03]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að réttindum barna þá eiga börn rétt á því að ganga í skóla sér að kostnaðarlausu samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það að blanda tekjum foreldranna inn í það, ég er ósammála því hjá hv. þingmanni en við getum rætt ýmsar leiðir sem eru til þess fallnar að ná til þeirra sem hafa hærri tekjur í íslensku samfélagi. Það er hægt að gera það í gegnum skattkerfið, það er hægt að gera það í gegnum ýmsar aðferðir sem við getum gripið til. En þegar þingmaðurinn talar um að við eigum ekki að tryggja öllum börnum í skóla gjaldfrjálsar skólamáltíðir þá er ég einfaldlega ósammála hv. þingmanni, vegna þess að það er ekki línan og kjarninn í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hv. þingmaður vitnaði til í upphafi í andsvörum sínum að við ættum að hafa til hliðsjónar og af hverju ráðherrann væri ekki að fylgja því. Börnin eiga rétt á því, óháð stöðu foreldranna, að geta gengið í gjaldfrjálsan skóla og þar á allt að vera undir, alveg sama hvort það eru skólamáltíðir, námsgögn á breiðum grunni eða annað sem barn þarf til að sinna sínu námi.

Að lokum vil ég segja að ég er stoltur af því að vinna með ólíkum aðilum. Við sjáum það hér í frumvarpi um námsgögn að við erum búin að ná að tengja saman ólíka aðila, nýta bæði opinbera geirann og einkageirann í frumvarpi og það gerist með samtali og samvinnu. Samtal og samvinna eru lykilatriði til að ná fram stórum breytingum. Ég er stoltur af því að hafa unnið með þeim hætti og ég mun gera það áfram hér eftir sem hingað til. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)