155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

landlæknir og lýðheilsa og sjúkraskrár.

230. mál
[15:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þm. Óla Björns Kárasonar fyrir þessar kjarnaspurningar sem við eigum einmitt að velta upp. Við erum vissulega að veita heimildir. En spurningin er þá kannski: Erum við að veita eitthvað víðtækari heimildir frá því sem er? Hv. þingmaður spyr hvort þetta frumvarp feli í sér víðtækari heimild til landlæknis. Ég kom inn á gagnaskil og kröfur á veitendur heilbrigðisþjónustu sem eru ekki auknar, þær eru ekki íþyngjandi í þessu frumvarpi. Það snýr að öðrum lögum um sjúkraskrár og frumskráningu. Upptalning á heilbrigðisskránum í þessu frumvarpi — og þær breytingar sem verið er að gera þar, það er verið að sameina nokkrar og bæta við — er tæmandi og það þarf sérstaka lagaheimild fyrir rekstri nýrra skráa, þannig að það sé sagt. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir reglugerð þar sem verður að finna nánari skilgreiningar á innihaldi heilbrigðisskráa. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga að hér er ekki bara opin heimild. Það er góð athugasemd hjá hv. þingmanni og ég get fullvissað hv. þingmann um að upptalning á heilbrigðisskrám í frumvarpinu er tæmandi, það þyrfti lagaheimild fyrir rekstri nýrra skráa. Það er hægt að taka umræðuna í hv. velferðarnefnd út frá því.