155. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2024.

Þjónusta við börn með fjölþættan vanda.

[14:51]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og málshefjandi þakka fyrir þessa umræðu sem mér hefur fundist góð, málefnaleg og hún sýnir mikinn vilja til að stíga inn í þessi mál. Það eru nokkur atriði sem mig langar að koma inn á. Í fyrsta lagi vil ég undirstrika aftur að með því að ríkið stígi inn í þessa þjónustu þá verður bæði fjárhagslegur ávinningur en ekki hvað síst faglegur ávinningur af þjónustu við þessi börn, og ég vil taka þar með undir það sem þingmenn hafa hér komið inn á, að við eigum kannski ekki að ræða þessi mál þegar við tölum um krónur og aura. Það vill svo til að í þessu tilfelli er ávinningurinn bæði faglegur og fjárhagslegur. Gríðarlega fjárhagslegur ávinningur.

Síðan langar mig að segja að ríkið hefur á síðustu árum verið að stíga inn í miklu þéttara samtal og samvinnu við sveitarfélögin, m.a. með beinu fjármagni. Það erum við að gera, m.a. með farsældarlögunum og innleiðingu þeirra, kostnaðarþátttöku varðandi málstjóra og tengiliði allt í kringum landið, svæði sem eru núna að fara að vinna í að skipuleggja forvarnaaðgerðir. Og við erum að byrja að sjá á einstaka svæðum að þar er barnaverndarmálum að fækka vegna þess að skóli og félagsþjónusta eru að vinna þéttar saman. Við erum að margfalda fjármagnið sem fer til ofbeldisaðgerða og þar erum við sannarlega að leggja áherslu á að byggja upp einstaklingana en ekki refsa.

Það liggur fyrir að tillögur að öðrum áfanga í málefnum fatlaðs fólks komu 11. september. Það liggur fyrir að við þurfum að bregðast við, ný tímalína á að hefja þessa innleiðingu frá og með 1. janúar. Það er mögulegt. Til þess þurfum við að ná samningum við sveitarfélögin og til þess þurfum við að tryggja fjármagn. Það er það sem ég mun leggja til að verði gert við 2. eða 3. umræðu fjárlaga (Forseti hringir.) og treysti á stuðning Alþingis í því. Eins treysti ég á stuðning og vinnu við samstarf við fjármálaráðherra Framsóknarflokksins, Sigurð Inga Jóhannsson, að við getum lokað því og að við getum unnið í sameiningu, ríkisstjórnin og þingmenn og sveitarstjórnir, (Forseti hringir.) að því að ná utan um þessi mikilvægu mál sem snúa að einmitt (Forseti hringir.) þeim börnum í íslensku samfélagi sem eru í veikastri stöðu.