155. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2024.

framkvæmd markaðskönnunar og undirbúningur útboðs á póstmarkaði.

56. mál
[18:51]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir máli með það ósexí nafn að vera þingsályktun um framkvæmd markaðskönnunar og undirbúning útboðs á póstmarkaði. Það sem ég á í rauninni við hér er að ég vil að Pósturinn sé seldur og að einkaaðilar sjái um póstþjónustu. Ég tel enga þörf á því að ríkið sé að standa í flutningsþjónustu eins og Pósturinn er að veita og við höfum á síðustu árum verið að setja 1,5 milljarða í aukið hlutafé í þetta fyrirtæki vegna þess að sendingar stóðu ekki undir sér. En fyrsta skrefið til að hægt væri að fara þá leið að selja Póstinn er að kanna hvernig þessari þjónustu er háttað, hvar markaðurinn gæti hreinlega tekið við án nokkurs atbeina hins opinbera og hvar þyrfti atbeina hins opinbera. Þess vegna er þessi þingsályktunartillaga hér lögð fram þar sem við segjum, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að láta gera markaðskönnun þar sem metið verði hvort nauðsynlegt sé að tryggja alþjónustu með samningi, útnefningu eða útboði skv. 3. mgr. 11. gr. laga um póstþjónustu, nr. 98/2019, og hefja í kjölfarið undirbúning útboðs á þeim þjónustuþáttum eða landsvæðum þar sem lágmarksþjónusta er ekki veitt á markaðsforsendum.“

Virðulegur forseti. Póstþjónusta hefur auðvitað breyst gríðarlega og ég er ekki í neinum vafa um að þegar Íslandspóstur var settur á og við ákváðum að þetta væri hlutverk hins opinbera þá var örugglega þörf á því en tímarnir eru bara aðrir í dag. Bréfpóstur hefur auðvitað farið snarlega minnkandi og fólk reiðir sig mun meira á rafræna pósta og rafrænar sendingar. Póstþjónusta hefur í auknum mæli færst í að vera bara í rauninni flutningur á pökkum bæði innan lands og utan lands og sem betur fer eru öflugir aðilar úti á markaðnum sem hafa farið að veita þjónustu hvað þetta varðar, gerðu það svo sem alltaf. Ég meina, það var hægt að senda böggla með Landflutningum og með rútunni og flugvélinni og svona í gamla daga. Þetta voru einkaaðilar en það var kannski ekki mikill rekstur í kringum þetta en í dag er bara fullt af aðilum í þessu. Eimskip og Samskip senda um land allt. Dropp veitir mjög góða þjónustu á höfuðborgarsvæðinu og er farið að veita líka slíka þjónustu úti á landsbyggðinni og ég er í rauninni alveg sannfærð um það að ef markaðurinn fengi tækifæri til að þróa þessa þjónustu áfram án atbeina ríkisins og án einhverrar niðurgreiðslu ríkisins til einhvers eins aðila þá myndum við sjá fjölbreyttari lausnir hvað þetta varðar.

Ég er með þessu ekki að segja að það þurfi ekki að tryggja þjónustuna. Það er mjög mikilvægt að þjónustan sé tryggð og þess vegna erum við flutningsmenn að leggja þetta fram því að við teljum nauðsynlegt að ráðherra láti gera þessa markaðskönnun til að yfirsýn fáist yfir það hvaða þáttum alþjónustunnar, sem sagt lágmarkspóstþjónustu, er nú sinnt á viðskiptalegum forsendum. Jafnframt þarf þá að greina hvort önnur fyrirtæki en Íslandspóstur ohf. myndu veita lágmarkspóstþjónustu á þeim fáu stöðum þar sem samkeppni er ekki til staðar ef þau þyrftu ekki að keppa við niðurgreiddan rekstur. Markmiðið væri því að greina hvort hægt sé að leysa alþjónustuskyldu með öðrum hætti en að útnefna Íslandspóst sem alþjónustuveitanda til ársins 2030, t.d. þá með útboði ef þörf væri á. Í kjölfar útboðsins er mikilvægt að ráðist verði í sölu á Íslandspósti ohf., annaðhvort í heilu lagi þannig að fyrirtækið geti starfað á þessum markaði eða að brjóta upp eignir hans og selja þær og umbreyta þannig þessum eignum sem eru til að mynda í húsnæði, í bílum, póstdreifingarmiðstöð og öðru þess háttar í eignir sem samfélagið á að reka og ríkið á að sjá um rekstur á og á að setja fjármuni sína í eins og t.d. skóla, spítala eða samgöngur, öryggisgæslu, löggæslu eða slíkt.

Á síðustu árum hafa keppinautar Íslandspósts kvartað mikið undan fyrirtækinu og bágu eftirliti af hálfu eftirlitsaðila. Þeir telja að verið sé að veita framlag vegna alþjónustu þar sem virk samkeppni er til staðar og því sé ekki keppt á jafnræðisgrundvelli. Það er auðvitað alveg óþolandi að slíkar ásakanir séu uppi og hafi ítrekað þurft að fara í einhverjar skoðanir og ná einhverju samkomulagi um það hvernig fyrirtækið eigi að hegða sér á þessum markaði. Því væri auðvitað eðlilegast að ríkið færi út af markaðnum.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra, virðulegur forseti. Hér liggur þetta mál fyrir og það hefur verið flutt áður og með mér á þessu máli eru hv. þingmenn Diljá Mist Einarsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Njáll Trausti Friðbertsson og Vilhjálmur Árnason. Þessu er sem sagt beint til innviðaráðherra sem fer þá með lög um póstþjónustu, að framkvæma þessa könnun, en í kjölfarið væri þá næsta skref að fela fjármálaráðherra að selja Íslandspóst ohf.

(Forseti (GRÓ): Forseti minnir hv. þingmann á að þingmálið er íslenska.)