01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

41. mál, bankavaxtabréf

Framsögumaður (Bjarni Jónsson):

Eg gerði grein fyrir því við 1. umr. þessa máls, hvers vegna meiri hluti nefndarinnar vildi halda þessu frumvarpi áfram. Þá voru líkur til, að bréf bankans myndu seljast, en engin vissa fyrir því; auk þess er svo langur tími milli þinga, að full ástæða er til að landstjórninni sé gefin heimild til að kaupa bankaskuldabréf eða bankavaxtabréf landsbankans, ef á þyrfti að halda, enda þótt áðurnefnd bréf væru nú þegar seld; gæti líka svo farið, að hinu frumv. hlektist á í Ed., og þá er þeim mun meiri ástæða til þessarar heimildar. Eg gat þess einnig við 1. umr., að þetta væri landstjórninni með öllu áhættulaust, og þau orð vil eg einnig endurtaka nú.

Því hefir verið hvíslað í eyra mér einmitt í þessum svifum, að komin sé hingað auglýsing um, að bréfin séu seld, en þess skal eg geta, að br.till. nefndarinnar breytast ekki við það.

Eins og eg gat um áðan, þá er sá tími milli þinga, að bankinn gæti komist í fjárþröng, áður en þing kemur saman næst; en þá þarf hann samkvæmt þessari heimild ekki annað en snúa sér til landstjórnarinnar, er annast lán bankanum til handa með ekki hærri vöxtum en 4½%. Það liggur í augum uppi, að þetta hentaði bankanum betur, en ef hann neyddist til að selja bréf sín fyrir 97, eða 96 eða jafnvel 95. Við heimild þessa er svo tryggilega um búið, að ekki þarf að óttast illa meðferð á fénu.

Vænti eg þess fastlega, að háttv. deild sé þessari heimild hlynt, því að það gæti komið sér mjög illa, ef ekki væri nú girt fyrir þá peningaþurð, sem kynni að verða í bankanum til næsta þings. Og það sjá allir, að færi miður, ef farið yrði að kalla saman nýtt þing til að veita jafn meinlausa heimild. Það er engin hætta á því, að landstjórnin með þessu bakaði sér nýja ábyrgð, þar sem lánin eru trygð með fasteignum.

Eg þykist nú vita, að öllum, sem bera velferð landsbankans fyrir brjóstinu — og það gerum við víst allir — muni ljúft að veita þessa heimild. Og ekki getur það verið annað en gott, að hafa hana að bakhjarli, enda þótt svo reyndist, að hennar þyrfti ekki með, því að auðvitað verður ekki til hennar tekið nema því að eins að brýna þörf beri til þess.