06.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

51. mál, stofnun landsbanka

Lárus H. Bjarnason:

Eftir samráði við framsögumann nefndarinnar, sem lagði það til við síðustu umr., að upphæðin standi óbreytt, vil eg geta þess, að það er ekki rétt að kalla þetta eftirlaun. Konunglega útnefndir embættismenn fá eftirlaun úr landsjóði, eftir að þeir hafa látið af embætti. En hér stendur alt öðru vísi á. Þessi maður hefir gengt ótal mörgum launalausum en nytsömum störfum í þarfir landsmanna, og því er ætlast til, að þessi upphæð, 4000 kr. árlega, sem honum er veitt á efri árum, verði skoðuð að nokkru leyti sem heiðurslaun. Enda er það ekki kallað eftirlaun, heldur lífeyrir í frumvarpinu. Neðri deild hefir samþykt þessa upphæð, og það er því síður ástæða til að gera þetta að kappsmáli milli deildanna, sem frumvarpinu verður þá ekki lokið á þessu þingi, nema með afbrigðum frá þingsköpum, og það er vafasamt, að þau afbrigði verði leyfð.

Það er heldur ekki rétt að þetta sé hærri lífeyrir en ráðherra er ætlaður. Ráðherra fær 3000 kr. eftirlaun minst, þó að hann gegni ekki embættinu nema eitt ár eða einn mánuð. En þau geta stigið miklu hærra, geta farið upp í 6000 kr. á ári.

Eg geri þetta ekki að kappsmáli. En mér þykir leiðinlegt, að þessi brt. hefir komið fram, bæði mannsins vegna og þeirra, sem atkvæði eiga að greiða um hana. Því vil eg mælast til þess af háttv. flutningsmanni tillögunnar, að hann taki hana aftur.