08.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ari Jónsson:

Eg ætla að leyfa mér að fara nokkrum orðum um brtill. á þskj. 952, sem fer fram á það, að veittar séu manni 800 kr. hvort árið til þess að afrita handa Landsskjalasafni merk skjöl erlendis, snertandi Ísland og sögu þess. Það er alkunnugt, að allvíða erlendis, einkum í söfnum, er mikið af merkum skjölum, er snerta sögu vora og þjóðerni — aðallega þó í ríkisskjalasafni Dana, sem mikils væri um vert fyrir menningu vora að geta fengið í vorar hendur. Það stendur og svo á um mörg slíkra skjala, að enginn vegur er til þess að fá þau léð. Einstök skjöl ýms þora söfnin ekki að missa burt til afskriftar; og sumt er innfært í „protókolla“, sem óhugsandi er að söfnin láti frá sér. En það þori eg að segja, að mörg slík sköl, er okkur áhræra, í ríkisskalasafninu danska og mörgum öðrum söfnum erlendis, eru miklu dýrmætari en margt af því, sem hér er safnað heima hjá okkur, með ærnum tilkostnaði.

Eg vil leyfa mér að benda á það, að t. d. hafa Norðmenn veitt manni styrk nú í hálfa öld til sama starfs; og nú er svo komið, að styrkur er þar veittur tveimur mönnum, til þessa starfa. — Þá vil eg einnig fara örfáum orðum um aðra tillögu, sem sé um fjárveitinguna til vegarins úr Hrútafjarðarbotni til Gilsfjarðarbotns. Hv. fjárlaganefnd vill ekki fallast á þá tillögu, og það þykir mér mjög undarlegt, eins sanngjörn og hún er í alla staði. Það virðist furðu hart að fella fjárveitingu til þessa vegar nú, þar sem hún hefir verið á fjárlögunum áður, og viðurkent er, að mikil þörf sé á því að halda áfram vegagerð á þessum stað. Annars tel eg óþarft að skýra frekar frá nauðsyninni á vegagerð þessari en eg hefi gert fyr við umræðurnar hér í deildinni, en treysti mörgum háttv. deildarmönnum til þess að fallast á þessa styrkveitingu.