13.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Kristján Jónsson:

Eg óska þess að fá að tala nú þegar, með því að ráðherra hefir ráðist á mig persónulega með illyrðum. Þessi ræða ráðherra kom á afturfótunum, þar sem hún kom á undan reifingu málsins, formlegri framsögu þess, og öll miðaði hún að því einu að sverta okkur gæzlustjórana og bera á okkur sakir. Eg hélt þó að það væri að bera í bakkafullan lækinn, því að síðan fyrsta níðgreinin birtist um okkur í Ísafold þ. 24. nóv. 1909, hefir þetta blað haldið áfram svo látlausri ofsókn og svertingu á okkur, að slíkt er einsdæmi í sögu þessu lands. Eg er þess fullviss, að aldrei í sögu þessa lands, og þó víðar sé leitað, hafa menn í slíkri stöðu, sem við erum, orðið fyrir jafnránglátum og ósvífnum árásum, sem þeim, er þetta blað hefir látið á okkur dynja síðastliðna 15 mánuði. Og átti eg sízt von á því, að ráðherra færi að ítreka þessar árásir hér úr ráðherrasætinu. Allar þær sakir, sem ráðherra og Ísafold hafa á okkur borið, eru löngu hraktar, svo að eg þarf ekki að eyða mörgum orðum að þeim. Skal eg fyrst minnast á víxlakaup starfsmanna bankans. Að því er þetta atriði snertir get eg vísað til athugasemda okkar og andsvara við skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Sú skýrsla okkar hefir sannfært almenning um, að engin sök hvílir á gæzlustjórunum í þessu efni. Sömuleiðis vil eg benda á bréf okkar gæzlustjóranna til almennings, er kom út daginn eftir frávikningu okkar, og er prentað aftan við andsvörin. Það er vörn í okkar máli, bygð á lögum og reglugerð bankans. Við höfðum að eins lítinn þátt í framkvæmdarstjórn bankans, en var falið eftirlit með henni. Eg vil biðja þá sem veikir eru í trúnni að lesa það, sem um þetta atriði er ritað í andsvörum okkar og bréfi til almennings.

Þá kem eg að tapi bankans, sem nú hefir klingt í rúmt ár. Það getur vel verið að bankinn tapi, en það eru hrein ósannindi, að það tap, sem kann að verða, stafi af vanrækslu okkar bankastjórnarinnar, eða hirðuleysi. Það hefir ekki sannast, að eitt einasta lán hafi tapast fyrir vítaverða vanrækslu okkar. Þetta verður að sannast áður en þeirri staðhæfingu er slegið fram, að bankinn hafi tapað yfir 400 þús. kr. fyrir vítaverða stjórn okkar á honum.

Það er vitanlegt að bankinn hafði í lok ársins 1909 eigi tapað meiru en 15 þús. kr. og er það sama sem ekkert á svo löngum tíma. Við lok fyrra árs hafði nokkru minni upphæð bæzt við tapið.

Eg get fullyrt það, að nú, 15 mánuðum eftir að okkur var vikið frá, er tap bankans í hæsta lagi orðið eitthvað innan við 30 þús. kr. Til samanburðar get eg getið þess að Þjóðbankinn í Höfn, merkasti bankinn í Danmörku „afskrifaði“ síðastliðið ár 8—900 þús. kr. fyrir tapi. Að vísu er þetta stór banki, en þessi upphæð tapaðist á einu einasta ári. Yfirleitt hafa danskir bankar hver um annan þveran „afskrifað“, sem það er kallað, mörg hundruð þús. kr. síðastliðið ár. Það yrði of langt mál, ef eg ætti að fara út í það hér, enda er það ljóslega sýnt og sannað í andsvörum okkar, að ekki verði hjá því komist að Landsbankinn verði fyrir nokkuru tjóni stöku sinnum. Það er ofur eðlilegt, þar sem það er ætlunarverk hans að styðja að atvinnuvegum landsins, styrkja fátæka menn í atvinnurekstri þeirra. En eg staðhæfi, að tapið er ekki orðið meira en það sem eg til tók, og að engin líkindi séu til að það verði verulega mikið á næstu árum, nema bankanum verði því ver stjórnað. Ráðherra sagði, að annar gæzlustjórinn, og á hann þar vafalaust við mig, hafi kannast við að tapið væri orðið 1—200 þús. kr. Eg lýsi þetta bein ósannindi. Tilefnið til þessara staðhæfinga mun vera samtal, er vér bankastjórnin fráfarna áttum við dönsku bankamennina, um tap það er bankinn kynni að verða fyrir. Sagði þá framkvæmdarstjóri, að vel gæti verið að bankinn tapaði nokkru, og að hann teldi það ekki mikið þó tapið yrði 90—100 þús. kr. Þá sneru bankamennirnir sér að mér og spurði mig um álit mitt. Eg sagði að auðvitað væru nokkur veik lán í bankanum, og kynnu þau að nema yfir 100 þús. kr. En eg bætti jafnframt við, að upphæð tapsins væri alveg undir árferði og stjórn bankans komin. Eg tók það fram, að eg byggist við, að með góðu árferði og góðri stjórn á bankanum mundi tapið verða hverfandi lítið. Eg lýsi það því fullkomlega ósatt, að eg hafi sagt við dönsku bankamennina að tap bankans væri orðið að 1—200 þús. kr., eins og tjáð er að þeir hafi eftir mér. — Að því er kemur til víxlatapsins, skal eg geta þess að eg kannast ekki við að það komi gæzlustjórunum neitt við. Þeir hafa ekki það hlutverk að telja víxla bankans. Það er verk endurskoðunarmanna bankans. Þeir eiga tvisvar á ári að sannreyna það, að eignir bankans séu fyrir hendi, þar á meðal víxlar. Hvorugur gæzlustjórinn vissi neitt um þetta víxlatap, en annar, nefnil. eg, vissi af hendingu um ávísana mismuninn. Svo skal eg bæta því við, að það er algerlega ósannað, að víxlar þeir sem hér er um að ræða séu í raun og veru tapaðir. Þetta svokallaða víxlatap byggist að öllum líkindum bara á reikningsvillu. Slík villa getur komið fram á þann hátt, að ávísanir eða víxlar, sem eru innborgaðir í útlenda banka, hafi ekki verið dregnir út af víxlaskrá Landsbankans, þó að upphæðin hafi komið honum til inntekta í viðskiftareikningi bankans. Slíkar reikningsvillur geta komið fyrir við hvern banka. Eg get enn bætt því við, að þetta svokallaða tap nemur ekki meiru en rúmum 2900 kr. að því er víxlana snertir; það er ekki rétt hjá ráðherra, að upphæðin sé 6 þús. kr. En, eins og eg hefi þegar tekið fram, varpa eg allri ábyrgð af mér og hinum gæzlustjóranum, að því er snertir þessa víxla og ávísanaskekkju. Hún er okkur alveg óviðkomandi. Eg neita því gersamlega að eg eða hinn gæzlustjórinn hafi nokkurn tíma, á nokkurn hátt, sýnt landsstjórninni svívirðing, mótþróa eða þrjózku. En þess vil eg aftur á móti láta getið að að mikið vantar á, að landsstjórnin hafi komið kurteislega fram við mig; bréf hennar til mín og hins gæzlustjórans voru stýluð eins og þau væru til óvandaðra manna; og það finst mér ekki sæmilegt athæfi af hálfu landstjórnar. Hæstv. ráðherra var enn þá að skrafa um gerðabókina; mig furðar nú reyndar talsvert á því, að hann skuli ekki vera búinn að fá nægju sína á því; það er fyrir löngu fullsannað að þar höfðum við gæzlustjórarnir á réttu að standa, og enn virðist hæstv. ráðherra ekki muna það, er hann sagði við mig í stjórnarráðinu, að svona yrði það þá að vera til ársloka með gerðabókarhaldið. Þá gaf hæstv. ráðherra það og í skyn í ræðu sinni, að ekki hefði verið við góðu að búast af mér sem gæzlustjóra, þar sem eg hefði enga þekkingu á bankamálum. Eg hefi nú verið í samtals 12 ár riðinn við bankastörf, og held eg geti fullyrt það, að eg hafi eins mikla þekkingu á bankastörfum og hæstv. ráðherra, að viðbættri allri Landsbankarannsóknarnefndinni, kann að hafa.