24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Pétur Jónsson:

Eg skal ekki blanda mér í bannlagaþrætuna. Eg álít það sé óþarfi nú. Þetta frumvarp, sem hér er á ferðinni, er fjárhagsmál, og á því ekki að snerta spurninguna um bann eða ekki bann á víni, nema í svip og af fjárhagslegum ástæðum. Það er alkunnugt, að háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) er ekki sjálfrátt, þegar um bannmálið er að ræða, og er þessi frekjuræða, sem hann hélt nú, ljós vottur þess.

Annað, sem ber vott um það, að honum er ekki sjálfrátt í þessu máli, er, að hann, skynsamur, gætinn og samvizkusamur í öðrum efnum, heldur fram bersýnilega rangri áætlun á víntollinum á fjárlagafrumv. til þess að síður þurfi til bannfrestunar að koma af fjárhagsástæðum. Það, sem hér liggur fyrir nú, er að svo komnu ekki það, hvort endilega skuli fresta bannlögunum, heldur um það, hvort taka skuli frumv. til íhugunar og skjóta því til nefndar, sem áður hefir verið kosin í samskonar mál, eða fella það. Háttv. þm. Sfjk.

(B. Þ.) vildi ekki einu sinni láta setja málið í nefnd, heldur fella það strax. En máske tíminn leiði í ljós einhverjar nýjar fjárhagsleiðir, svo það verði alveg óþarfi að samþykkja þetta frumv. Frumv. sjálft er að vísu ekki svo margbrotið, að það sé ástæða til þess að setja það í nefnd, af þeirri ástæðu. En það er af því, að þeir menn, sem frestinn vilja, eru ekki á eitt sáttir um, hvað fresturinn eigi að vera langur. Sumum finst það óþarfi, að hafa hann nema eitt ár. Aftur eru aðrir, sem vilja fresta bannlögunum 2 ár og enn nokkrir samþ. frumv. óbreytt. Þarna eru þrjár leiðir til þess að bæta fjárhaginn með bannfrestun í einhverri mynd. Eg vona því, að málið verði sett í nefnd. Það er ókurteisi gagnvart Ed., að fella mál, sem kemur þaðan, án þess að setja það í nefnd, eða íhuga það lengur en við eina umræðu. Og hér er of alvarlegt fjárhagsatriði til þess að kasta því viðstöðulaust.