07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

32. mál, stækkun verslunarlóðarinnar í Gerðum

Flutningsm. (Björn Kristjánsson); Eg hefi litlu að bæta við það, er eg hefi tekið fram við 1. umr. máls þessa. Eg skal þó, til upplýsingar máli þessu geta þess, að hið umrædda svæði er um 500 faðmar með sjó fram.

Ástæðan fyrir því, að nauðsynlegt er að stækka hina umræddu verzlunarlóð, er, eins og eg áður hefi tekið fram, í fyrsta lagi sú, að gera mönnum mögulegt að fá veðdeildarlán út á eignir sínar og veita þeim þannig jafnrétti við aðra. Í öðru lagi er ástæðan sú, að létta á hinum þungu lóðargjöldum, sem lögð eru á hús á núverandi kaupstaðarlóð. Eins og nú standa sakir, er lóðin leigð af útlendu félagi, er tekur hátt lóðargjald. Garðurinn er gott aflapláss og því hættulaust að veita veðdeildarlán út á eignir þar, en það er að eins heimilað að veita slík lán út á eignir í verzlunarstöðum. Af sömu ástæðu er einnig rétt að samþykkja frumv. það um verzlunarlóð í Vestmannaeyjum, er nú liggur fyrir háttv. deild. Vona eg svo að frumv. þetta verði samþykt af háttv. deild.