24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2044 í B-deild Alþingistíðinda. (2486)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Frsm. minni hl. (Bened. Sveinsson):

Mér þykir hlýða að fara nokkrum orðum um álit minni hluta nefndarinnar. Raunar eru skoðanir þess hlutans settar fram á þgskj. 251, svo að eg get verið stuttorður, því fremur sem margt hefir áður verið tekið fram, bæði af virðulegum þm. Barð. (B. J.). og þm. N.-Ísf. (Sk. Th), þótt eg sé þeim ekki samdóma í öllu.

Þegar tillögunni var vísað til bankanefndarinnar, var það skoðun sumra nefndarmanna, eða eins þeirra að minsta kosti, að nefndin ætti að taka till. til meðferðar í sambandi við rannsókn á bankamálinu í heild sinni og leggja fram álit sitt um það í einu lagi. Nú greinir þingmenn á um þetta. Telur framsögum. meiri hlutans tillöguna hafa verið tekna út af dagskrá vegna umræðna um samskonar till. í Ed.

En nú var till. tvisvar tekin út af dagskrá og síðan vísað til bankanefndarinnar, og virðist það benda til þess, að nefndin skyldi rannsaka, hverjar verulegar ástæður lægju til grundvallar fyrir gildi tillögunnar, en þær geta ekki komið í ljós, fyr en nefndin hefir lokið störfum sínum, eða að minsta kosti gert eitthvað meira en ennþá er orðið. Nefndin er skamt á veg komin í störfum sínum og lítur því minni hluti hennar svo á, að ekki sé tími til kominn enn að taka till. fyrir; er það ein af ástæðum okkar til þess að við viljum láta vísa till. til nefndarinnar aftur.

Háttv. framsögumaður meiri hlutans (J. Ól.) kendi gömlu rannsóknarnefndinni það, að störfum þessarar nefndar væri svo skamt komið, en ekki er það réttmætt. Að vísu var þref nokkurt við einn nefndarmanninn úr rannsóknarnefndinni um afhending gerðabókar, en það stafaði af því, að hún var geymd í innsigluðum pakka og þurfti leyfis formanns nefndarinnar til að opna hann. Varð því að bíða samþykkis hans, en það tók tíma, því að hann er búsettur í Vestmannaeyjum. Eg tel vafalaust, að nefndin mundi hafa getað haft nægilegt að gera þennan tíma, því að landsbankinn hefir jafnan staðið henni opinn og hún getað snúið sér til hans hvenær sem hún hefði viljað fara þangað.

En hvað viðvíkur hinni formlegu hlið málsins, þá er eg einnig annarar skoðunar en meiri hluti nefndarinnar. Minni hluti nefndarinnar er þar á sama máli og háttv. þm. Barð. (B. J.) og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.). Allir eru samdóma um það, að stjórnin hafi haft lagalegan rétt til þess að víkja gæzlustjórunum frá fyrir 1. jan. 1910. Um hitt er þrætt, hvort ráðherra hafi haft vald til þess eftir þann tíma, þegar ný lög voru komin í gildi. Eg hefi þá skoðun, að ráðherra geti vikið gæzlustjórunum frá; þeir eru opinberir starfsmenn, sem eru háðir eftirliti landsstjórnarinnar og eftir stjórnarskránni getur stjórnin vikið öllum frá nema dómurum, en þeim getur hún ekki við frá nema eftir dómi. Sumir hafa talað um, að stjórnin hafi ekki haft þetta vald, nema gæzlustjórarnir hefðu orðið uppvísir að glæpum, en þó hér sé ekki um slíkt að ræða, þá getur starfið verið rækt þannig, að nauðsyn beri til þess að víkja manninum frá því.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) líkti gæzlustjórunum við forseta þingdeildanna og spurði, hvort stjórnin mundi hafa leyfi til að víkja þeim frá milli þinga. En hér getur enginn samanburður átt sér stað. Því fyrst og fremst er störfum forsetanna alt öðru vísi háttað, en störfum gæzlustjóranna og svo taka þá varaforsetarnir við, ef hinir verða forfallaðir; en gæzlustjórarnir hafa dagleg störf á hendi við stofnun, sem er háð eftirliti landsstjórnarinnar. Hér kemur því enginn samanburður til greina.

Það hefir verið talað um, að stjórnin hafi verið skyldug að hlýða úrskurði fógeta og setja gæzlustjórana tafarlaust inn í embættið. Fógetaúrskurðurinn hljóðaði þannig, að Kristjáni háyfirdómara Jónssyni væri veittur aðgangur að húsi, bókum og skjölum bankans, og eftir því sem mér er frekast kunnugt, þá hefir þessu verið vendilega hlýtt. Annars er það mál nú fyrir dómstólunum, hvort það hafi verið löglegt, að víkja gæzlustjórunum frá eftir

1. jan. 1910, og er ekki útkljáð enn.

Eg verð að taka í sama strenginn og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), að mál þetta horfi alt öðruvísi við nú, heldur en þegar þessi þingsályktunartillaga kom fram fyrst hér í deildinni. Hin núverandi stjórn hefir alt aðra skoðun á þessu máli en hin fyrverandi stjórn hafði, og maður hefði getað búist við, að þessi stjórn, sem nú situr, hefði álitið það skyldu sína að setja gæzlustjórann inn í embætti sitt jafnskjótt og hún tók við. Og það er beinlínis hlægilegt, að vera að skora á stjórnina að gera það, sem hún álítur skyldu sína að gera og vill gera. Það er líkt og þegar eg og hv. þm. Dal. (B. J.) komum fyrir skömmu með þingsályktun um að skora á stjórnina að gefa út frímerki með mynd Jóns Sigurðssonar; en þegar við fengum að vita, að stjórnin hafði þegar gert ráðstafanir til þess að búa til frímerkin, þá tókum við tillöguna aftur. Líkt er hér ástatt. Nú er ný stjórn tekin við, sem telur það eitt rétt og löglegt, að gæzlustjórarnir taki sæti sitt í bankanum. Er því numin hér burt ástæðan fyrir þingsályktunartillögunni og þess vegna óskum við minni hluta nefndarmennirnir, að hún sé tekin aftur. En ef þingsályktunartillagan verður ekki tekin aftur, þá munum við greiða atkvæði með hinni rökstuddu dagskrá, sem fram hefir komið.