08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (111)

16. mál, stjórn landsbókasafns

Benedikt Sveinsson:

Það var sagt hér í háttv. deild í gær, þegar verið var að ræða um launakjör embættismanna, að launalögin væru orðin gömul, frá 1873, og úrelt, en hér er því ekki til að dreifa, því að lög, þau sem hér ræðir um, eru frá árinu 1907. En það hefir hlaupið inn mesti fítonsandi í stjórnina að hækka laun embættismannanna, og má um þetta frumvarp segja, eins og Danir, að lítið muni um mörsiðrið í sláturtíðinni.

Ekki hefi eg orðið þess var, að landsbókavörðurinn hafi Sótt burtu frá safninu, en hins hefi eg orðið var, að þegar sýslanir þessar eru auglýstar lausar, þá er nærri því flogist á um þær af lærðum og velfærum mönnum.

Eg efa það ekki, og tel það jafnvel sjálfsagt, að það sé mjög æskilegt fyrir safnið, að sömu mennirnir sé sem lengst við það, ef þeir eru á annað borð starfinu vaxnir, og þessu heldur stjórnin nú fram í athugasemdum sínum við frumvarpið, en eftir því væri sjálfsagt, að veita ungum mönnum starfið. En stjórnin hefir ekki haft þá skoðun áður, því að þegar önnur aðstoðarsýslanin var auglýst laus, þá sóttu um hana ungir og efnilegir menn, en stjórnin vildi þá ekki, heldur seildist norður á Akureyri eftir gömlum uppgjafa-embættismanni og veitti honum starfann. Þetta kemur í bága við þær skoðanir, sem hún heldur nú fram og réttar eru, að bezt sé að hafa menn, er gera þetta að ævistarfi sínu. Eftir annari framkomu stjórnarinnar, væri ekkert líklegra, en að hún tæki í þessi embætti einhverja gamla uppgjafa sýslumenn, einkum ef að því ræki, að stjórnarráðið yrði fullskipað slíkum starfsmönnum.

Ráðherrann talaði um það í gær hér í deildinni, að hann vildi hafa samræmi í laununum, en þegar hann nú leggur til að laun landsbókavarðarins séu hækkuð, því hefir hann þá ekki gert ið sama um landsskjalavörðinn, eða mundi stjórnarráðið ekki eftir honum (Sig. Sigurðsson: Hann hefir ekki borið sig upp!) — eða ef til vill treystist hann til að lifa einfaldari lifi en landsbókavörðurinn! (Hlátur).

Ekki er stjórn Landsbókasafnsins svo framúrskarandi, að hægt sé að verðlauna hana, því að henni er talsvert ábótavant. In fyrsta og helzta skylda safnsins er að eiga allar íslenzkar bækur, sem út eru gefnar, eða bækur, er snerta Ísland og íslenzkar bókmentir, en þetta er vanrækt. Er hér t. d. varla hægt að gefa út alþýðuútgáfur af Íslendingasögum, því að beztu útgáfur af sumum sögunum t. d. þær, sem komið hafa út suður í Halle á Þýzkalandi, eru ekki til á Landsbókasafninu. Þetta er ekki verðlaunavert.