06.09.1913
Neðri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2200 í C-deild Alþingistíðinda. (1448)

26. mál, sparisjóðir

Framsögum. (Magnús Kristson):

Eg get lofað því, að tefja ekki tímann fyrir mönnum. Enda hefir ekki neitt það komið fram, sem gefi mér tilefni til að tala langt mál. Eg get ekki séð, að ástæður þær, er eg flutti fram fyrir nefndarinnar hönd, hafi að nokkru leyti verið hraktar. Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.), sem talaði talsvert langt mál með sinni tillögu, hefir að því er mér virðis, ekki skilið eða ekki viljað skilja það sem eg sagði. Eg reyndi þó að tala greinilega, og eg hygg, að orð mín hafi verið svo ljós, að þau hafi ekki gefið tilefni til nein smisskilnings. Eg tók það skýrt fram, að ekki væri ætlast til, að ákvæðið um upphæð sjálfskuldarábyrgðarlána og víxillána næði til þeirra sparisjóða, sem stofnaðir væru, þegar lög þessi gengju í gildi. Ummæli hans voru því þýðingarlaus, þar sem hann var að sýna fram á, hve miklum örðugleikum væri bundið að breyta til um þau útlán, sem þegar væri búið að veita. Það er ekkert það ákvæði í frumvarpinu, sem gerir stjórnum sparisjóðanna að skyldu, að taka neina nýja aðferð upp hvað þau snertir. En ef svo færi, að sparisjóðastjórnirnar tækju upp hjá sjálfum sér að haga Sér eftir þessu ákvæði frumvarpsins, þá sýndi það ekki annað en það, að þær væru fullkomlega samþykkar stefnu frumv., sem ætlast er til að gildi um in nýju lán. En eg hygg, að engin hætta sé hér á ferðum, því að stjórnum sparisjóðanna er það alveg í sjálfsvald sett, hvernig þær haga sér í þessu efni.

Háttv. sami þm. (St. St.) gerði ráð fyrir því, að ef féhirðum. sparisjóðanna væri gert að skyldu að setja tryggingu fyrir fé, því er þeim væri trúað fyrir, þá mundi enginn verða fáanlegur til að takast þann starfa á hendur: En það er aðgætandi, að í frumvarpinu er ekkert bindandi ákvæði um þetta. Það er á ábyrgð stjórna stofnananna, hver tryggingarupphæð verður ákveðin í hverju einstöku tilfelli, því landsstjórnin ákveður hana eftir tillögum þeirra. Að öðru leyti skal eg ekki dvelja við þetta atriði.

Viðvíkjandi ræðu háttv. 2. þm. G. K. (Kr. D.) hefi eg lítið að segja annað en það, sem eg hefi tekið fram áður, að að eg hefði álitið heppilegra ef hann hefði komið fram með þessar athugasemdir sínar í nefndinni, því að þá hefðum við getað sparað okkur að yrðast hér út af þeim. (Kristinn Daníelsson: Eg gerði það). Hér er auðvitað ekki að ræða um vitnaleiðslu, en eg hygg þó að, aðrir nefndarmenn muni það með mér, í að háttv. 2. þm. Gullbringusýslu hreyfði engum verulegum mótmælum í nefndinni á móti þeim till., er meiri hlutinn bar fram við G. umræðu, fyr en um leið og nefndarálitið var undirskrifað. Það hefði mátt vænta þess að jafn skarpur maður sem þessi háttv. þm. er, hefði fullkomlega verið búinn að átta sig á málinu við 2. umræðu, og því gat meiri hlutinn ekki búist við, að hann kæmi nú fram með nýjar breyt.till., sem miða til þess að raska þeim grundvelli, er nefndin bygði á. En það verður skiljanlegt, hvernig í þessu liggur, af því sem hann sagði nú í ræðu sinni. Hann tók það fram að hann hefði borið fram þessar tillögur sínar eftir viðtali við sérlega fróðan mann í þessum efnum. Það sannar, að þetta var ekki komið í huga hans þegar nefndin sat að störfum sínum. Að því leyti er það afsakanlegt, að hann skyldi ekki koma fram með þessar athugasemdir sínar þar. Samt sem áður vil eg ekki viðurkenna að ráðunautur háttv. þm. (Kr. D.) hafi það meira vit á þessu máli en allir þeir er í nefndinni sátu, að sjálfsagt sé að byggja verulega á tillögum hans eða láta þær hafa áhrif á atkvæðagreiðsluna. Allir nefndarmennirnir hafa fengið meiri eða minni reynslu í þessum efnum. þar sem þeir hafa um talsvert margra ára bil, verið riðnir við stjórn sparisjóða víðsvegar um landið. Eg hygg því að fult eins mikið tillit sé takandi til skoðana þeirra og skoðana háttv. 2. þm. G.K. (Kr. D.) nú, jafnvel eftir að hann hefir fengið þessar nýju upplýsingar.

Eg skal svo ekki fjölyrða frekar um málið. Mér er þetta ekkert sérlegt kappsmál, en eg tel það samt sem áður skyldu mína., úr því að eg er við málið riðinn, að leggja á móti þessum brt., sem komið hafa fram á, síðustu stundu, og eg ásamt meiri hluta nefndarinnar álit heldur spilla málinu.