28.08.1913
Efri deild: 41. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

91. mál, kornforðabúr til skepnufóðurs

Guðm. Björnsson, framsögumaður:

Hv. 1. kgk. þm. (Júl. Hav.) talaði um það, að hann gæti ekki greitt 2. gr. frv. atkvæði og þar með frv. í heild sinni, ef hún stæði kyr, gæti það ekki, vegna þess er hann kallaði „kommunismns“; en það merkir, að enginn eignarrjettur sje til, og allir grafli í öllu sem til er. En þetta er hreinasti misskilningur. Hjer er alls ekki um slíkt að ræða, og sveitarsjóðir og landssjóður eiga ekkert að greiða nema forðinn sje notaður. Það, sem um er að ræða, er, að þessir sjóðir greiði nokkuð af tryggingar-upphæðinni, það er alt og sumt.

En hjer er ekki um neina nýung að gera.

Við höfum samþykt lög um sjúkrasjóði, þar sem heitið er styrk úr landssjóði, þ. e. a. s. alþýðu er heitið hjálp til þess að tryggja heilsu sína. Og eins er um ellistyrktarsjóðslögin (Stgr. J.: heyforðabúr).

Það er langt síðan að hv. 1. kgk. þm. (J. Hav.) hefur verið í öðrum löndum, hann hefur dregizt aftur úr. En þar eru nú komnir upp allskonar alþýðutryggingarsjóðir. Það er talið sjálfsagt, að ríkissjóðir styrki þá öfluglega. Þar eru trygginga gegn sjúkdómum, slysum, ellilasleika og atvinnutjóni. Og það er margreynt, að þetta er mesta þjóðarblessun. Og þessar trygglagar aukast ár frá ári. En við erum á eftir í því sem öðru. Það er satt, að á 9. og 10. öld var það fremdin mest, að spila upp á eigin spítur, og trúa á mátt sinn og megin. En það er fjarskalega langt síðan að aumingjarnir komust í skilning um það, að þeim er ekki nóg að trúa á mátt sinn og megin, að þeir geta ekki sjeð sjer farborða hvað sem ábjátar.

Nei, eini vegurinn fyrir þá, til þess að halda frelsi sínu og sjálfstæði, er sá, að afneita sjálfum sjer, hópa sig saman og hjálpa og styrkja hver annan.

Og þ að er hið æðsta boðorðið, að haldast í hendur og hjálpast að.

Jeg vil ekki aftur fara að tala um nefndarálitið, nje minnast á það, er hv. þm. V.-Sk. (S. E.) var að tala um. En jeg vil þó segja við hann og aðra, þá er líkt mæla, að ummæli þeirra stafa af því, að þeir hafa, því miður, ekki hugsað um málið, þeir hafa ekki enn haft tíma til að hugsa um þetta nýmæli. Af því stafar mesta mótspyrnan.

Við getum vel lifað, þó að börnin sjeu illa mentuð, en kornmatarlausir getum við ekki lifað. Þó hefur þingið samþykt, að beita þvingun í barnafræðslumálum (S. E.: Er það einokun). Já, einokun og þvingun er eitt og hið sama. Og sama er um vatnið hjer í Reykjavík (Júl. Hav. og S. E.: Jeg get fengið vatn annarsstaðar) Mikið rjett, en jeg verð samt að borga bæjarvatnið, þótt jeg ekki noti það; þessvegna er það þvingun; þessvegna er það einokun. En hvað var sagt hjer í bænum, þegar verið var að ræða um vatnið. Það var fjarskalega margt og mikið.

Það var sagt, að það væri að taka atvinnu frá vatnskerlingunum, og það var sagt, að aumingjarnir gætu ekki greitt vatnsskattinn; hann væri nýr skattur á þá og alt of þungbær. En hvað segja aumingjarnir nú. Aumingjarnir koma nú hver af öðrum og biðja um, að vatnið sje leitt inn til þeirra, biðja um að fá að greiða vatnsskatt. Og vatnskerlingarnar hafa allar fengið eitthvað annað að gera og kaupmönnunum er sannarlega ekki vandara um en vatnskerlingunum. Sú regla er algild, að hagur einstaklinganna verður að víkja fyrir hagsmunum heildarinnar.

Það getur vel verið, að þetta eigi langt í land. Fáfræði og hleypidómar sitja hjer að völdum í þessum vandamálum. En jeg er viss um það, að þjóðin mun bráðlegar sjá, að þetta er eina rjetta leiðin. Sú tíð kemur, að fáfræði og hleypidómar verða að víkja sæti bæði í þessu og öðru. Þetta er framtíðarmál.