21.07.1913
Neðri deild: 15. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (249)

22. mál, eftirlit með fiskveiðum í landhelgi

Kristinn Daníelsson:

Eg ætla að eina að lýsa því yfir, að mér þykir leitt að þurfa að vera á móti breytingartillögunni, því andanum í henni er eg algerlega samþykkur. Allir, sem sjávarútveg stunda, eiga að hafa atkvæðisrétt í þessum málum, þar á meðal þeir sem þegið hafa sveitarstyrk.

Eins og háttv. umboðsm. ráðh. (Kl. J.) tók fram, þyrfti að breyta fleiru ef nokkru er breytt, og þykir mér leitt að háttv. flutningsm. (B. J.) ekki bar sig saman við nefndina áður en hann kom fram með breyt.till. sína.

Þessi lög geta ekki haft áhrif á aðra en þá einstöku hreppa, þar sem fiskiveiðar eru aðalatvinnuvegurinn. Í þeim hreppum munu verða haldnir undirbúningafundir, þar sem allir segi álit sitt um þessi mál og hafa atkvæðis- og tillögurétt um þau og á þann hátt áhrif á þau, svo að þetta mun ekki upp tekið, nema mjög almennur vilji sé fyrir því. Eg get skýrt frá, að þess konar fundir voru haldnir í þeim bygðarlögum, þar sem nú er haldið uppi slíku eftirliti úr landi.

Breyt till. er að mínu áliti í sjálfu sér alveg réttmæt, en gerir í þessu tilfelli ekki tilætlað gagn.