13.09.1913
Neðri deild: 59. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2527 í C-deild Alþingistíðinda. (2689)

Fundalok

Forseti (M. A.):

Dagskrá er nú lokið og þar með störfum deildarinnar að þessu sinni. Hvernig sem dæmt verður um störf þessa þings, þá hygg eg, að enginn geti neitað því með sanngirni, að þau hafi verið bæði mikil að vöxtunum og mörg mjög merkileg. Eg býst við, að í dag verði af öðrum minst á störf þingsins yfir höfuð, og skal eg því ekki eyða orðum að því. En mig langar til, um leið og við skiljum, að votta háttv. Samdeildarmönnum mínum innilegt þakklæti fyrir samvinnuna. Sérstaklega þakka eg hæstv. ráðherra og háttv. varaforsetum og skrifurum deildarinnar fyrir þá ómetanlegu aðstoð, sem þeir hafa veitt mér við starf mitt, svo og öllum öðrum háttv. þingdeildarmönnum fyrir ástúðlega viðkynningu. Eg veit, að verki mínu, sem eg að vísu hefi viljað leysa svo vel af hendi sem mér var unt, hefir verið ábótavant. Þar hefir hlotið að bera á ófullkomleika mínum, ekki síður en annarstaðar. En því þakklátari er eg samdeildarmönnum mínum fyrir það, að eg hefi ekki orðið var við annað, en að þeir hafi viljað taka viljann fyrir verkið. Það er jafnan svo við skilnað þingmanna í þinglok, að þar eiga þessi orð við: óvíst er hvort aftur hittumst önnur jól«. En sérstaklega tek eg undir þessi orð nú, með því að það er óvíst að eg stofni til þess aftur, að eg gangi hér um þennan sal sem alþingismaður að þessari þingsetu minni lokinni. Því fremur kveð eg háttv. samþingismenn mína með hrærðum huga og innilegu þakklæti fyrir mannúðlega framkomu gagnvart mér og óska þeim alls góðs.

Bið eg svo guð að gefa góðan árangur af störfum þingsins og að gefa þjóðinni jafnan vitra, góða og atorkusama þingmenn og blessa störf þeirra þjóðinni til heilla í öllum greinum.