05.08.1914
Efri deild: 32. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

89. mál, friðun héra

Jósef Björnsson:

Jeg talaði ekkert um, að jeg væri hjerafróður, nje heldur ófróður, svo að ummæli háttv. þm. Strand. (M. P.) gátu ekki átt við mig. En jeg þykist vita svo mikið um hjera, að jeg geti fullyrt, að þeir sjeu ekki nein stórkostleg skaðskemdardýr. Jeg hefi hvorki í Noregi nje Danmörku heyrt nokkurn mann minnast á, að æskilegt væri að útrýma þeim. Þrátt fyrir ummæli skógræktarstjórana, hefi jeg enga trú á, að hjer yrði nokkurntíma að leggja í útrýmingarbaráttu til að eyða þeim.

Eitt kemur mjer í hug, sem jeg sjerstaklega vil benda háttv. þm. Strand. (M P.) á, af því það mælir með frumvarpinu frá hans sjónarmiði, og það er það, að hjerar eru taldir góð tófufæða. Þeir, sem vilja fjölga tófum og hafa tófurækt, ættu því líka að vera hlyntir því, að hingað flyttust hjerar. Og þeir, sem illa er við tófuna, ættu ekki að vera mótfallnir hjerunum, því sagt er, að tófur sæki meira eftir hjerum en lömbum, og eru því líkur til, að þeir gætu hlíft nokkrum lömbum.