19.08.1914
Efri deild: 40. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

120. mál, stjórnarskrá

Karl Finnbogason:

Mjer finst undarlegt, að svo mikið skuli vera rætt um fyrirvarann nú, þar sem það mál er alls ekki til umræðu, þó það sje á dagskrá. (Forseti: Það er eftir ósk háttv. 3. kgk. þm. (Stgr. J.)). Jeg vil leyfa mjer að benda á eitt atriði, sem mjer kemur kynlega fyrir.

Hvað eftir annað er flokknum og ráðherra legið á hálsi fyrir það, hve illa hann hafi verið úr garði gjörður af flokknum á konungsfund, og að hann hafi komið heim jafn heimskur og hann fór. (Forseti: Þau orð hafa ekki verið viðhöfð). Hvort sem þau orð hafa viðhöfð verið eða ekki, þá er þetta meiningin. En jeg verð að segja það, að það er slæm aðferð, sem fyrirrennarar hans hafa haft, að koma heim af konungsfundi hvað eftir annað með skýr nei fyrirfram, áður en mál hafa legið fyrir til fullnaðarúrslita. Það er góð aðferð, sem þessi ráðherra hefir tekið upp, að fara ekki svo langt út í málin, áður en þau koma fyrir konung til staðfestingar, að hann sje þegar fyrirfram búinn að ákveða sig og segja sína fyrirætlan. Með þeim hætti, að leita álits hans um hvað sem er fyrirfram, er hann gjörður að einvöldum konungi og þingið að eins ráðgefandi þing. Það er auðveldara fyrir konung að neita fyrirfram, en erfiðara að gera það eftir á, þegar málið liggur fyrir honum afgreitt af þinginu til staðfestingar eða synjunar.

Sú aðferð, að fá yfirlýsing konungs fyrirfram, hefir verið viðhöfð bæði í stjórnarskrármálinu og fánamálinu; og munu flestir telja það illa farið. Vona jeg það og óska þess, að núverandi ráðherra haldi uppteknum hætti, og færi oss sem fæst nei konungs fyrirfram.