31.07.1914
Neðri deild: 27. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Framsögum. (Einar Arnórsson):

Þótt ekki væri þetta mál til fullnaðar álitið og rætt í gærkveldi, þá var samt vel farið, að sá fundur var haldinn; ella hefði þurft að byrja nú alveg undirbúningslaust og málið hefði tafizt meira. Eftir þingfund í nótt kom nefndin saman og athugaði frv. lið fyrir lið og þær mótbárur, sem fram höfðu komið á fundinum. Nefndin hefir komið sér saman um brt. á þskj. 297. Eg vil biðja menn að hafa það hugfast, að hér er aðeins um heimildarlög að ræða, vitanlega sett í því trausti, að landsstjórnin misbeiti þeim ekki á nokkurn hátt, enda er og samkvæmt 1. gr. frv. stjórninni ætluð 5 manna nefnd til ráðuneytis.

Það var vel farið, að þingsköpunum var ekki fylgt nákvæmlega við 1. umr. málsins, og að það var rætt, líkt og 2. umr. væri. Við það greiddist málið og nefndin gat athugað þær mótbárur, sem fram komu, fyrr en ella mundi.

Brt. nefndarinnar, þær er máli skifta, eru þrjár.

Sú fyrsta fer fram á það, að skeyta við 4. lið 2. gr. þeim viðauka, að eigi verði stöðvaðar fjárgreiðslur samkvæmt þegar gerðum samningum og ráðstöfunum um verk eða loforðum um lánveitingar á þessu ári. Í rauninni er brt. aðeins til skýringar, því að flutningsmenn væntu þess, að aldrei mundi stjórninni koma til hugar að ganga á gerða samninga eða stöðva framkvæmdir á verkum, sem þegar væri byrjað á, og meira eða minna tjón gæti hlotist af að stöðva.

2. brt. á þskj. 297 er fram komin , samkv. bendingum þm. við 1. umr. Hér er ekki um mikla efnisbreyting að ræða, heldur um skýrara ákvæði. Samskonar brt. hefir komið fram frá háttv. umboðsm. ráðherra (Kl. J.) á þskj. 295, og býst eg þá við, að hún verði tekin aftur. Í þessarri brt. er greint á milli innfluttrar vöru og vöru, sem framleidd er hér, og er ákvæðið þrengra en samsvarandi ákvæði frv. Í framkvæmdinni hefir þó þessi munur enga verulega þýðing, því að alt fer eftir góðri ráðsmensku stjórnarinnar.

Þá er 3. brt. á þskj. 297. 1. málsgr. hennar er aðeins orðabreyting. Þar á móti er 2. málagr. meira en orðabreyting. Hún er framkomin samkv. bendingum þm. í nótt við 1. umr. Þótti sumum þá, sem þetta ákvæði 4. gr. frv. kæmi í bága við 50. gr. stj.skr. Eg fyrir mitt leyti er þó engan veginn viss um, að 4. gr., eins og hún var upphaflega, sé ekki í samræmi við 50. grein stj.skr.; en úr því, að vafi þykir leika á því, telur nefndin rétt að girða fyrir þann vafa.