08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Einar Jónsson:

Eg hefi mikið til sömu ástæðu til að biðja um orðið, og háttv. þingmaður nefndi, sem síðast talaði. Eg býst við, að oss bændum verði brugðið um vanþekkingu og grunnhygni í þessu máli. Það er nú eins og allir vita, að eg get ekki talað latínu eða grísku, en eg trúi því samt, að þessi mál sé nauðsynleg fyrir mentamenn.

Mín stefna er nú sú, að fyrst og fremst sé nauðsynlegt að gera sem mest til þess að efla efnahaginn. Þá fyrst, þegar það er fengið, þá er að snúa, sér að hinu, sem til metorða og metnaðar heyrir. Það þarf enginn maður mér að segja, að ekki þurfi fyrst peninga til eflingar framleiðslunni, en hitt getur komið á eftir þar fyrir.

Eg hefi oft verið á móti nýjum embættum, og hefir sú atkvæðagreiðala mín stuðst við þá skoðun, að eg álít, að þjóðin sé fátæk og hafi eigi efni á slíku fyrst um sinn, þótt það í raun og veru kunni að vera í þörfum tilgangi gert. Þess vegna verð eg líka enn að vera með dagakránni, sem hér liggur fyrir. Að minsta kosti vildi eg óska, að þeir vildi ekki vera á móti fjárveitingunni til Þorlákshafnar, sem ætla sér að vera með þessum kennarastól í klassískum fræðum. Eg er í engum vafa um það, að vér ættum að byrja á Þorlákshöfn, en láta þetta bíða. Það myndi gefa oss peninga og spara oss mannslíf. En ef það er vilji háttv. deilar, að fella það, sem horfir til aukinnar framleiðslu, en styðja hitt, sem einungis horfir til aukinnar mentunar, þá vil eg óska henni meira samræmis í hugsanagang sinn.

Eg hygg, að það sé ekki vert að láta þetta koma í veg fyrir fyrirtæki eins og mótorbátakví í Þorlákahöfn. Eg set þetta alt í samband við kennarastól í klassískum fræðum, enda þótt eg sé alls ekki á móti framgangi þess máls, en eg vil ekki láta það ganga fyrir öðru þarfara. Vér verðum að fara varlega í að auka útgjöld landasjóðs. Vér munum það, að háskólinn náði samþykki á sínum tíma með þeim ummælum, að hann þyrfti ekki neitt sérstakt húsnæði, sem ekki væri til annara notað, eða með öðrum orðum, að ekki þyrfti að byggja handa honum sérstakt hús. Og hingað til hefir hann líka hafst við hér í alþingishúsinu, eins og kunnugt er. En þess var þó ekki langt að bíða, eftir að hann var kominn á, að sagt var, að annaðhvort þyrfti að byggja yfir hann nýtt og veglegt hús, ellegar að breyta þinghúsinu.

Þetta er mín afstaða til þessa mála, ekki að eg sé mótfallinn því í sjálfu sér, — eg álít það þvert á móti þarft og nauðsynlegt, — en eg vil ekki láta það ganga fyrir öðru ennþá nauðsynlegra.