10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Flutningsm. (Einar Arnórsson):

Eg skal ekki fara mörgum orðum um ræður þessara þriggja háttv. þm., sem talað hafa á móti frv. Þeir berja því allir við, að embættið sé óþarft. En að það sé ekki óþarft, um það skal eg leyfa mér að vísa til álits háskólaráðsins. Satt að segja blöskrar mér það, að maður, eina og háttv. 1. þm. N.-Múl (B. H.) treystir sér til að dæma um þetta atriði. Og í raun réttri getur hann ekki stutt þetta álit sitt við þetta bréf próf. Ólsens, heldur þvert á móti.

Um álit B. M. Ólsens veit eg ekki, hvað eg á að segja. Mér kemur það dálítið undarlega fyrir og finst, að þar höggvi sá, er hlífa skyldi. Mér kemur þetta álit hans því undarlegar fyrir sjónir, þar sem tillaga sú, sem samþ. var af háskólaráðinu og nú er tekin upp í 1. gr. frv., var einmitt orðuð af honum á fundi í háskólaráðinu. (Guðm. Hannesson: Það held eg ekki). Jú, mér er kunnugt um það, því að eg var á fundinum, sem háskólaráðið hélt, þegar því hafði verið sent málið til umsagnar, og eg er sjálfur skrifari í háskólaráðinu.

Eg verð ennfremur að taka það fram, að með allri virðingu fyrir próf. Birni Ólsen, tel eg hans dóm eða álit engan hæstaréttardóm í máli þessu. Eg tel hann engu bærari til að dæma um þetta mál en rektor Mentaskólans, Geir Zoöga, sem líka er klassískur málfræðingur. Hefir hann ritað undir áskorunina til þingsins um að koma kenslu þeirri á fót, sem hér er ætlast til. Og óviðfeldið er það í meira lagi, að próf. Ólsen lýsir yfir því í skjali, sem hann væntanlega veit, að lagt yrði hér fram, að enginn Íslendingur sé fær um að takast kensluna á hendur. Hvað ætli verði síðar, ef allir hérlendir menn eru nú óhæfir til þess?

Menn hafa sagt, að betra mundi að koma þessari kenslu fyrir í Mentaskólanum, og þeir gera sér glæsilegar vonir um, að það muni verða mjög ódýrt, ekki nema svo sem 300–400 kr. að því er einhver sagði. Eg held það sé mesti misskilningur. Eg held að það mundi reynast miklu dýrara, því að menn verða að gá að því, að tímakensla við mentaskólann er þó goldin með kr. 1.50 um klukkutímann. Auk þess veit eg ekki betur, en sífelt þurfi að bæta við kenslukröftum við Mentaskólann, vegna þess að tvískifta þarf sumum bekkjunum, sakir hinnar miklu aðsóknar. Kennarar hans munu því ekki geta bætt á sig neinum tímum.

Þá er það látið klingja við, eins og líka kemur fram og áður er að vikið, í bréfi próf. Ólsens, að ekki sé til neinn hæfur maður í atöðuna, en það er ekki annað en gamla mótbáran frá 1909 og 1911, þegar Háskólinn var stofnaður. Þá átti enginn hæfur maður að. vera til í nein kennaraembættin við Háskólann. Það er ekki mitt að dæma um það, hvort kennarar Háskólans hafa reynst starfanum vaxnir, en það held eg að mér sé óhætt að segja, að engir þeirra hafi orðið sér til stórskammar í stöðu sinni. Það er víst, að mennirnir skapa stundum tækifærin, en hitt er eina víst, að tækifærin skapa mennina, og svo held eg að mundi fara um þetta.

Annars er það ekki þingsins að dæma um það, hvort til sé hæfilegur maður í stöðuna, heldur stjórnarinnar. Vér verðum að treysta því, að hún fari vel að ráði sínu í þessu efni. Finni hún engan hæfan mann í stöðuna, þá skipar hún auðvitað ekki í embættið. Þarf því ekki að fjölyrða um þennan Ramagrát þingmanna.

Það hefir verið bent á það, að eðlilegra væri að kenna þessi mál í Mentaskólunum, helzt af því, að það sæmdi ekki að vera að kenna undirstöðuatriðin í þessum greinum við Háskólann. Þetta er þó gert við háskólana í Khöfn og Kristjaníu. Þar er byrjunar námsskeið í grísku og fleiri málum t. d. austurlandamálum. Svona er það og í ótalmörgum greinum í öllum háskólum út um heim.

Mér eru líka kunnugar skoðanir Haraldar prófessora Níelssonar á þessu máli. Hann hefir sagt mér, að ógerlegt væri að kenna guðfræði svo að við sé hítandi, þeim mönnum, sem eigi kynni grísku. Hvað hann kann að hafa sagt við háttv. 1. þingm. N.-Múl. (B. H.) veit eg ekki um. En mér er þó sagt nú, að háttv. 1. þm. N.-Múl: (B. H.) hafi líka í fórum sínum skriflegt álit þessa manns um málið. Hví hefir hann ekki svo mikið við það sem álit hins prófessorsins, Bjarnar Ólsens, að lesa það hér upp? Eða er það máli hana eigi til jafnmikils stuðnings og hitt álitið ?

Einhver háttv. þingmaður sagði, að aðsóknin mundi verða lítil við háskóla vorn til að nema þessar greinir. Það er bæði satt og ósatt. Miðað við stórþjóðirnar og háskóla þeirra, er aðsóknin auðvitað lítil, vegna þess hve fáir vér erum.

Sami háttv. þingmaður sagði og að mönnum yrði þetta nám að litlu eða engu gagni, þegar út í lífið kæmi. Ef ætti að leggja þennan mælikvarða hve mikið gagn menn beinlínis hefði á þær kenslugreinir, sem menn nema á skólaárum sínum, þá leiddi það í raun réttri til þeirrar ályktunar, að sleppa mætti flestum kenslugreinunum í mentaskólanum, því að ekki verður ábendanlegt gagn af helmingnum af því, sem menn læra þar — eða ætti að læra þar samkvæmt reglugerð skólana. Það fer alt eftir því, hvaða sérfræðigrein menn leggja stund á síðar. Eg hygg t. d. að fæstir hafi í daglegu lífi ábendanlegt gagn af allri þeirri stærðfræði, sem kend er í mentaskólanum. En ef nokkur grein er bráðnauðsynleg til þess að . þroska hugann manna og kenna þeim að læra og fá nauðsynlega seglfestu á hugsunum sínum, þá er það einmitt stærðfræði. Og alveg það sama er um gömlu málin að segja.

Prófessor Haraldur Níelsson hefir bent á það, að Norðmenn hafa stofnað sérstakt embætti í þessum greinum við háskóla sinn — aðallega ætlað guðfræðingum til undirbúninga. Og það sem Norðmenn láta sér nægja með, þurfum vér ekki að skammast oss fyrir. Eg er alveg sömu skoðunar í þessu máli og áður og vil eindregið mæla á móti því, að þessi rökstudda dagskrá, sem háttv. 1. þingmaður N.-Múl. (B. H.) bar fram. verði samþykt. Og eg get ekki trúað því, að þeir menn, sem áður hafa greitt þessu máli atkvæði, gangi í þessa dagskrárgildru.