16.08.1917
Neðri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í C-deild Alþingistíðinda. (2877)

156. mál, samábyrgðin

Gísli Sveinsson:

Hv. þm. V.-Ísf. (M. O.) virtist hneykslast á því, að hv. þm. (B. Sv.) hefði aflað sjer þekkingar á þessu máli, og eru það nokkuð einkennilegar röksemdir. En sumt í ræðu hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) bar ljósan vott um það, að þekking hans á þessu máli væri ekki eins staðgóð og hann sjálfur virðist halda.

Þegar þetta frv. kom fram í dagsljósið, þá bjuggust menn vitanlega við því, að það væri vendilega íhugað, þar sem málið var komið frá hv. sjávarútvegsnefnd. Menn bjuggust við því, að málið hefði verið borið undir Samábyrgðina, og að hún væri að öllu leyti sammála nefndinni um frv. Það varð ekki heldur annað heyrt á hv. frsm. (Sv. Ó.) við fyrstu umr. málsins en að svo væri.

En því ver varð mönnum við, er það varð kunnugt, að Samábyrgðin er ekki einungis mótfallin málinu, heldur jafnvel telur það stórhættulegt fyrir fjelagið. Þetta mál er svo vaxið, að Samábyrgðin hefir samið við sjerstök fjelög um að endurtryggja það, sem trygt er hjá henni. Verði nú þessar breytingar samþyktar, þá fellur úr gildi þessi endurtrygging. Það er því sá einn kostur til, að semja á ný við sama fjelagið, eða við eitthvert annað fjelag, ef ekki takast samningar við það. Það er ekki víst, að þessir samningar gangi svo greiðlega, og getur því verið hættulegt að afgreiða þetta mál frá þinginu, án þess að hafa leitað fyrir sjer áður um það, hvernig slíkir samningar mundu ganga. Það er enginn að segja það, að þetta mál sje ekki borið fram af góðum vilja, en þrátt fyrir það er ekki gefið, að það sje vandlega undirbúið, og ekki virðist vera nein ástæða til að flaustra málinu af.

Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), talaði um, að Samábyrgðin fengist aldrei til að sinna þessu máli. Þetta er nú, eins og allir sjá, fullyrðing út í loftið, og jeg fyrir mitt leyti trúi henni ekki, en þótt það væri rjett, þá má leita til landsstjórnarinnar. (P. Þ.: Ekki hefir landsstjórnin vit á sjómensku). Hv. þm. Mýra. (P. Þ.) heldur kann ske, að landsstjórnin sje ekki til nema fyrir búandmenn uppi á Mýrum. Landsstjórnin getur hæglega útvegað sjer aðstoð fróðra manna um þessi efni, og því er sjálfsagt að vísa þessu máli til hennar, en ekki flaustra því svona af, eins og sumir virðast ætlast til að gert verði. Annars má segja, að það stappi vítaverðu næst, að ein meiri háttar þingnefnd skuli bera fram mál, sem ekki er betur undirbúið, og auk þess fara þannig að, að ýmsir mundu vilja kalla tilraun til blekkinga.

Eitt af því, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) villist á í þessu máli, er það, að hann virðist rugla saman skoðun á skipum og flokkun á þeim. En skoðun sú, sem hjer á landi hefir verið, er alt annað en flokkun, því að skoðunin er ekkert annað en það að komast að því, hvort skipið sje sjófært eða ekki.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) þótti dæmið, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) tók um skipið, sem skoðað var bæði hjer og í Hafnarfirði, ekki vera vel valið. Dæmið var einmitt ágætlega valið. Málið var þannig vaxið, að jeg er ekki í neinum vafa um, að hefði það komið fyrir einhversstaðar annarsstaðar en hjer, þá hefði það varðað stórvítum þá, er gerðu skipið út.

Skipið, sem um var að ræða, var gamall dallur, og skoðunarmennirnir hjer vildu ekki gefa vottorð um, að skipið vært sjófært. En þá er það tekið til bragðs að fara með skipið suður í Hafnarfjörð og fá skoðunarmennina þar til að gefa vottorð um, að skipið sje sjófært. Þetta varð svo að blaðamáli, og fór svo á endanum, að rannsókn var hafin bæði hjer í Reykjavík og í Hafnarfirði. Kom það fram við rannsóknina, að gagngerð mótsögn var í framburði skoðunarmanna hjer og þeirra í Hafnarfirði, og var vefengd skýrsla Hafnfirðinga. Annað dæmi má líka nefna, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) drap víst líka á, um skoðun, sem fór fram í Hafnarfirði. Þeir höfðu þar gefið vottorð um skip, sem átti að fara á fiskveiðar; skipið leggur af stað, en er varla komið út af höfninni þegar gat dettur á skipið af sjálfu sjer! — Það er von, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) vilji óðfús koma á flokkun, sem bygð sje á svona skoðun.

Mjer heyrðist nú helst á því, sem hv. frsm. (Sv. Ó.) hafði fram að bera, að honum hlyti að vera fullnægt, ef þessu máli yrði vísað til stjórnarinnar. Jeg vænti því þess, að hann greiði dagskránni atkvæði.

Jeg skal að lokum að eins drepa á eitt, sem hv. þm. V.-Ísf. (M, Ó.) gerði að umtalsefni, sem sje, hver ætti að bera ábyrgðina, ef slys vildi til af hirðuleysi skipstjóra. Það sjá allir, að eigandi skipsins hefir meira um það að segja, hver ráðinn er skipstjóri, heldur en vátryggingarfjelagið. Það virðist því öll sanngirni mæla heldur með því, að hann beri ábyrgðina, en ekki fjelagið, sem engin tök hefir á að ráða nokkru um ráðningu skipstjóra eða skipshafnarinnar.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en vona einungis, að háttv. deild samþykki þá rökstuddu dagskrá, er hjer liggur frammi.