25.08.1917
Neðri deild: 43. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í C-deild Alþingistíðinda. (2897)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Matthías Ólafsson:

Jeg er þakklátur háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) fyrir ræðu hans, með því að hann varð til þess að upplýsa það, sem jeg hefði ella orðið að taka fram, að gjaldið ætti að vera til þess að jafna það, sem útflutningsgjald er minna en ábúðar- og lausafjárskattur. En svo vildi hann sanna, að þetta síðarnefnda gjald væri í raun og veru hærra, og setur upp reikninginn þannig, sem auðvitað er rjettur á þeim grundvelli, sem hann er búinn til. Hann telur fiskinn með því verði, sem er á nr. 1, en gáir þess ekki, að mest af þeim fiski, sem aflast, nær ekki einu sinni ? af dýrasta fiskinum að verði; þennan dýrasta fisk tekur hann til þess að fá út alveg bandvitlausan reikning, Hann gengur alveg fram hjá því, að mest af því, sem botnvörpungarnir veiða á vetrartímum, er uppi og að annar þeirra fiskur kemst yfirleitt ekki í nr. 1. Hann gengur einnig fram hjá því, að sjávarútvegsmenn verða einnig að greiða lausafjártíund af bátum sínum.

Það er ekki jeg, sem hefi leitt asnann inn í herbúðirnar, heldur þeir, sem flutt hafa þetta einhliða frv.

Þess er enn að gæta, að ef menn vilja fara að tala um, hvað kemur á hvert nef í landinu af gjöldum til landssjóðs, þá held jeg, að margfalt meira gjald komi á sjávarútveginn en landbúnaðinn, af þeirri ástæðu, að hann þarf svo miklu meira af vörum, sem gjald er greitt af í landssjóð, svo sem kol, salt, strengir, kaðlar og segldúkar.

Það er auðvitað leiðinlegt að þurfa að fara út í þennan meting milli atvinnuveganna, en ef nefndin hefði tekið upp það ráð, sem háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) benti á, að leggja til að hækka ábúðar- og lausafjárskatt um leið og útflutningsgjald af sjávarafurðum, þá mundi enginn hafa hreyft mótmælum.

Mjer er brugðið um, að jeg stökkvi upp á nef mjer, þegar um gjöld sje að ræða af sjávarútveginum, en það hefi jeg aldrei gert að ástæðulausu, aldrei, ef hækkað hefir verið samtímis á öðrum afurðum. En jeg get ekki setið þegjandi hjá, þegar lagt er að eins einhliða á þessa atvinnugrein, en ekki á aðrar, En með þessu frv. er farið fram á það, en engum öðrum alvinnuvegum ætlað að taka þátt í samskonar hækkun, og því á frv. ekki að ná fram að ganga.

Út af því, sem háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sagði um háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að hann væri sjávarútvegsmaður, þá mun það rjettara að segja, að hann sje aðallega landbóndi. (Sv. Ó.: Jeg stunda meir sjávarútveg). Ef svo er, þá sýnir þetta að eins ósjerplægni mannsins og óvenjulega rausn; raunar hefi jeg þekt menn, sem af hjegómaskap vildu greiða hærri opinber gjöld en þeim bar.

Þegar alt er til tínt, sem sjávarútvegurinn borgar í útflutningsgjald og tolla, þá mun útkoman verða sú, að tiltölulega hvíli á honum hærri gjöld en á landbúnaðinum. Jeg skal ekkert fara út í það, hvað landið leggur til sjávarútvegarins og hvað það leggur til landbúnaðarins, af því að jeg tel sjálfsagt að koma landinu upp og tel því ekki eftir fjárveitingar til vega, brúa o. s. frv.; þau gjöld eru eðlileg og bændur finna betur, hvar skórinn kreppir en sjávarmenn, og landið verður að fara að dæmi siðmenningarlanda; en að annar höfuðatvinnuvegurinn verði sjerstaklega að leggja fram mest af fjenu, sem til þess gengur, — með því get jeg aldrei orðið.