28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í C-deild Alþingistíðinda. (2907)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg sný mjer fyrst að fullyrðingu hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), þeirri, að hann kveður það betra fyrir landbúnaðinn, að lausafjárskatturinn hækki. Hefir hann líklega átt þar við það, að er meðalalin hækki, þá beri það vott um, að landbúnaðarafurðir hafi hækkað í verði. Þessu ber ekki að neita. En mundi það þá ekki rjettast að bera saman hlutfallið milli verðhækkunar landbúnaðarafurða og sjávarafurðanna, og gjaldhækkunina á þeim við verðhækkunina? Lítur það þannig út, að eftir því, sem landbúnaðarafurðir hækka í verði, eftir því hækkar lausafjárskatturinn, en hvað mikið sem sjávarafurðirnar hækka í verði, þá er útflutningsgjaldið af þeim óbreytt, útflutningsgjaldið af einu skpd. af fiski jafnhátt, hvort sem fyrir það fást 60 kr. eða 160 kr., því að gjaldið er greitt af þunga, en ekki verði, fisksins. Sjávarútvegsmenn hafa því haft verðhækkun sína í friði fyrir auknum álögum, alla tíð síðan útflutningsgjaldslögin voru sett, að undanteknum þeim tíma, sem verðhækkunartollurinn hefir gilt, en hann hefir líka legið á landbúnaðarafurðunum, og er nú auk þess að falla úr sögunni. Að vísu er það rjett, að sjávarútvegsmenn greiða lausafjárskatt af skipum sínum, eins og bændur af skepnum sínum. En fyrst og fremst er það alveg hverfandi, ef nefnt er það dæmi, sem áður hefir verið tekið í þessu sambandi, — það, sem kýrin gefur af sjer, í samanburði við skipið, og auk þess fellur lifandi afrakstur kýrinnar undir lausafjárskattinn, en ekki afli skipsins, og með það fyrir augum m. a. er útflutningsgjaldið sett.

Nefndin var að leitast við að finna rjett hlutfall milli skattgjalds á landbúnaði og sjávarútvegi, og sá hún ekki betur en að það gæti ekki fengist hentugra til bráðabirgða með öðru en því að hækka útflutningsgjald sem svaraði því, er lausafjárskatturinn hefir hækkað, því að hún sá, að ástæður leyfðu ekki að lækka hann, og tilgangurinn var að auka tekjur landssjóðs. Hitt er annað atriði, sem eigi má blanda saman við þetta, að einn atvinnuvegur getur verið svo illa staddur um stundarsakir, að hann þoli lítil eða engin gjöld. Slíkt stendur að sjálfsögðu í engu sambandi við þennan samanburð.

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sló á þá strengina, að sjávarútvegurinn væri nú kominn á heljarþröm. Jeg játa það, að hagur hans muni vera erfiður nú sem stendur. En jeg bið menn að gæta þess, að þetta frv. er komið frá fjárhagsnefnd, til að fylla ofurlítið upp í skarð það, sem hlýtur að höggvast í tekjur landssjóðs við óhjákvæmileg og aukin útgjöld og fyrirsjáanlega tekjurýrnun. Og er því eðlilegt, þótt hingað sje leitað, sem byrðarnar eru ljettastar fyrir, þegar á alt er litið, enda mun það, sem betur fer, nokkuð gífurlega til orða tekið hjá háttv. þm. (S. St.), er hann segir, að hjer eigi að stofna til þess að leggja aukin gjöld á gjaldþrota menn. Væri þetta rjett, þá væri ekki einungis tilgangslaust að leggja á þá aukin gjöld, heldur hlyti að verða að leysa þá undan öllum gjöldum. En til allrar hamingju er sjávarútvegurinn ekki svo djúpt sokkinn enn, og sekkur vonandi aldrei svo djúpt, að til þess þurfi að koma. Hjer er nú ekki um annað að ræða en hvort gjaldauki sá, sem nefndin leggur til, sje í sjálfu sjer sanngjarn, og hefir það verið sýnt með gildum rökum, að svo sje; sömuleiðis verður því ekki neitað, að útflutningsgjaldið er ekki tilfinnanlegt. Það hefir verið borið fram hjer í deildinni, að mikið af fiskinum í ár sje þegar selt „stórspekulöntum“ fyrir tiltölulega lágt verð, og hefir eigi þótt ástæða til þess, að hann fjelli undan verðhækkunartolli, því að hagnaðurinn af því mundi renna í vasa stórbokka þessara. En yrði frv. þetta samþykt nú, þá mundi nokkuð nást í landssjóð til uppbótar fyrir verðhækkunartollinn, sem nú liggur við borð að falli, og væri það sanngjarnt, því að sjálfsögðu munu fiskkaupmennirnir hafa keypt fiskinn með það fyrir augum að verða að greiða hann, og hagað verði sínu eftir því. Það var fjarri nefndinni að vilja níðast á þessum atvinnuvegi, en henni fanst sanngirni mæla með því að auka lítið eitt gjöld á honum, borið saman við landbúnaðargjöldin, fyrst að varla verður hjá því komist að auka gjöldin einhversstaðar. Og engin sjerstök hækkun á síldartolli kemur til greina á þessu þingi. Það var sannmæli hjá háttv. 1. þm. N.-Ísf. (S. St.) að síst bæri að ala á ríg milli atvinnuveganna. En stappið og eftirtölurnar, sem skapa ríg, koma að miklu leyti af því, að í hvert sinn, sem talað er um að leggja eitthvað á sjávarútveginn, þá rísa málsvarar hans upp til handa og fóta og heimta, að líka sjeu lögð gjöld á landbúnaðinn; allur slíkur metnaður er beinasti vegurinn til að skapa ríg og kala, Það er ekki okkur að kenna, þótt eldurinn sje tendraður og glæddur. Kyndararnir eru þeir, sem fara að eins og háttv. þm. Ísf. (M. Ó. og S. St.).

Þá kom háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) að því, að minka þyrfti útgjöldin og mintist á tekjuhallann í fjárlagafrv. Jeg ætla ekki að blanda mjer í það mál. En það mun vera sprottið af ókunnugleika háttv. þm. (S. St.), hvernig hann talaði. Það er alls eigi lofsvert af stjórninni, að henni tókst að halda fjárlagafrv. sínu tekjuhallalausu, með því að setja tekjuliðina hærri en varlegu hófi gegndi, en ýmsa útgjaldaliði lægri en nokkur von er til að þeir geti orðið eða nokkurt vit er í að setja þá, og auk þess slept ýmsum óhjákvæmilegum gjaldaliðum. Hækkunin, sem orðið hefir í meðferð þingsins, miðar einmitt mest að því, sjá mönnum og stofnunum fyrir „mat“, eins og hv. þm. (S. St.) einmitt komst að orði, að nú ætti að vera aðalatriðið, og mun hann því síst víta það, svo óálitlegar sem hann telur horfurnar. Býst jeg við, að háttv. þm. (S. St.) muni nokkuð breyta skoðun, er hann hefir áttað sig betur.