25.08.1917
Efri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í C-deild Alþingistíðinda. (3181)

53. mál, stimpilgjald

Frsm. (Hannes Hafstein):

Jeg skal ekki fara í kappræður við háttv. 1. þm. Rang (E. P.).

Nefndinni var kunnugt um, að frv. um stimpilgjald kom fram í Nd. á þinginu 1915. Þá var því vísað til stjórnarinnar með rökstuddri dagskrá, eins og hv. l. þm. Rang. (E. P.) tók fram. Efri deild gafst þá ekki kostur á að ræða málið, og vildi nefndin því gefa þessari hv. deild kost á að vísa málinu sömu leiðina sem hv. Nd. vísaði því sumarið 1915.

Stjórnin hefir alls ekki gert sig seka í neinni vanrækslu, þótt hún hafi ekki athugað málið, eins og henni var falið. Hún hefir haft margt þarfara fyrir stafni og ekki haft neinn tíma til að sinna þessu máli. Enda hafa orðið stjórnarskifti síðan, og er ekki von, að hin nýja stjórn hafi haft tækifæri til að kynna sjer jafnvandasamt mál. Frv. er alls ekki íslenskt smiði, heldur sniðið eftir erlendum lögum. En þar eru alt aðrar ástæður fyrir hendi, og miklu minni erfiðleikar á framkvæmdum þessara laga heldur en hjer á landi. Verður því að athuga málið gaumgæfilega, áður en okkur eru sett þessi lög.

Jeg skal standa við loforð mitt, að deila ekki kappi við háttv. 1. þm. Rang. (E. P.). Jeg veit, að hann grunar okkur nefndarmenn ekki um það að vilja hafa lögmætar tekjur af landssjóði, enda þótt okkur hafi farist svo hlálega í þessu máli. Það er sannfæring okkar, að nauðsynlegt sje, að stjórnin taki málið til alvarlegrar íhugunar, einkum er kemur til framkvæmda á lögunum.