27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í C-deild Alþingistíðinda. (3667)

155. mál, rannsókn hafnarstaða

Gísli Sveinsson:

Af því að jeg átti dálítinn þátt, á aukaþinginu í vetur, í þingsályktunartillögu um rannsókn hafnarstaða, þá vildi jeg nú mega leyfa mjer að bland mjer í tveggja manna tal, og skýra frá því, sem mjer fanst ekki koma nógu skýrt fram í ræðu hæstv. atvinnumálaráðherra að mjer er kunnugt um það, að Jón Ísleifsson, verkfræðingur, bauðst til að vera áfram í þjónustu landsins með ofurlítið breyttum kjörum; hann vildi ekki nema að hálfu leyti vera bundinn við verk það, sem hann hafði áður haft, en mega að hinu leytinu vinna að öðru, sem sje því, sem till. fór fram á að gert yrði. Hann hefir fengist allmikið við rannsóknir hafna, mest af hjerlendum verkfræðingum, og hefir hin bestu meðmæli. En það gekk ekki saman með honum og landsstjórninni, en hann lýsti yfir því, að hann yrði að ganga úr þjónustu landsins, ef hann mætti ekki jafnframt vatnsvirkjunum fást nokkuð við hafnarrannsóknirnar. Hvarf hann svo, því miður, úr þjónustu landsstjórnarinnar, enda bauðst honum annað álitlegt starf, og hefir hann nú ærið nóg að gera og góða atvinnu, svo að óvíst er, hvort hann vill eða getur nú tekið að sjer störf fyrir landsstjórnina. Honum skildist, að verkfræðingur Kirk væri á sömu skoðun sem hann, að aðalundirbúningsstarfið væri heppilegast að láta verkfræðing, slíkan sem Jón Ísleifsson, vinna. En að því búnu þyrfti að fá sjerfræðing, og það útlendan, til að leggja smiðshöggið á og skipa fyrir um sjálfa framkvæmd verksins.

Þessi er skoðun Jóns Ísleifssonar, að það sje ofdýrt og óþarfi að láta sjerfræðing vinna alt undirbúningsverkið; það væri að jafnaði seinunnið verk, og gæti jafnvel skift árum, þangað til því væri að fullu lokið. Mjer skilst, að með þessu sje leyst gátan og að svona eigi að fara að.

Þótt jeg eigi ekki hlut í fyrirspurn þessari, þá verð jeg að láta í ljós, að mjer finst landsstjórnin ekki hafa farið rjett að, er hún hafnaði tilboði Jóns Ísleifssonar. Vildi jeg óska, að hún sæi sjer fært að ráða fram úr nauðsynjamáli þessu á líkan hátt og Jón lagði til, og má vera, að enn sje hægt að komast að samningum við hann, án þess að jeg viti neitt um það. Það er gott að heyra, að Kirk, verkfræðingur, muni vera fáanlegur til að vinna eitthvað að þessu hafnarskoðunarverki í haust, ef veður leyfir. En þá væri æskilegt, að Jón Ísleifsson væri með honum og fengist svo til að vinna verkið áfram. Kostir þeir, sem Jón Ísleifsson setti landsstjórninni, voru þannig, að ekki sýndist fráfælandi að ganga að þeim, og launin, sem hann vildi fá, sjerlega sanngjörn. En jeg hygg, að nokkru hafi um ráðið, að ekki gekk saman, að landsverkfræðingurinn hafi ekki þóst mega missa hann frá vinnu við vatnsvirki á landi; mundi það þó hafa verið betra að missa hann frá þeim að nokkru leyti en að tapa honum alveg úr þjónustu landsins, sem raun varð á.

Jeg hefi sagt þetta að eins til að lýsa áhuga mínum á framkvæmd verks þess, sem fyrirspurnin hljóðar um, og til að gefa upplýsingar um atriði, sem mjer fanst ekki koma nógu ljóst fram í ræðu hæstv. atvinnumálaráðh., þar sem jeg var þeim kunnugur.