06.07.1917
Neðri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Einar Árnason:

Mjer finst sjálfsagt, að háttv. deild noti þessa umr. til að gefa nefnd þeirri, er málið fær til meðferðar, nokkurt veganesti.

Eftir því sem nefndin færir sig nær vilja þm., því meiri von er um, að till. hennar nái fram að ganga. Á síðasta þingi var málinu mjög flaustrað af. Það kom frá nefnd í þinglok, og þm. höfðu lítinn sem engan tíma til að koma með brtt. Enda voru margir þingmenn óánægðir með fráganginn, þótt þeir samþyktu það. Jeg tel nauðsynlegt að gera alt til þess, að óánægja sem þessi komi ekki fram aftur, því að hún gæti hleypt málinu í strand. Það ber einkum tvent til þess, að meiri varhygðar verður gætt í þessu máli en á síðasta þingi.

Í fyrsta lagi, að sú hefir raunin á orðið, að dýrtíðaruppbótin hefir hlaupið langt fram úr áætlun, svo að hjer er því annaðhvort, að nefndin hefir bygt áætlun sína í lausu lofti, eða að þingsályktunartillagan hefir verið misbrúkuð, og er hvorugt gott.

Í öðru lagi hlýtur varhygðin að stafa af því breytta ástandi, sem nú er frá síðasta þingi, og er þá fyrst að líta á fjárhaginn. Í vetur var fjárhagur landssjóðs góður, og mun það hafa valdið nokkru um það, hve vel þingið tók þá í dýrtíðarmálið. Enda verður ekki um það deilt, að starfsmenn hins opinbera þola nú betur kreppuna, eftir að þeir hafa á þessu ári fengið þessa ríflegu dýrtíðaruppbót.

En nú er svo komið, að fje vantar bæði til þessa og ótalmargs annars, er fje þarf til. Jeg veit, að mjer verður svarað því, að ekki sje annar vandinn en að taka lán, en jeg álít þá aðferð, að taka lán til að eta upp jafnharðan, ekki tiltækilega fyr en í ítrustu neyð. Þegar rætt er um uppbót til starfsmanna landssjóðs, þá hlýtur hugurinn að hvarfla til alþýðunnar.

Ef stríðið heldur lengi áfram enn, og samgöngur og verslun versna mikið fram úr því sem nú er, þá fara atvinnuvegirnir að hallast, og þá er það bersýnilegt, að almenningi verður líka að hjálpa. Fer þá að vandast málið; því að hver á að bera þann skatt? Jú, framtíðin líklega. Getur verið, að að því reki, en sjálfsagt er að sporna við því í lengstu lög. Sem betur fer hefir ekki enn borið á atvinnuleysi.

Þar, sem jeg þekki til fyrir norðan, er mikil eftirspurn eftir fólki til landbúnaðarins og hátt kaup boðið. Jeg sje líka, síðan jeg kom hingað, auglýsingar í blöðunum eftir fólki til sveitavinnu, og veit jafnframt, að erfiðlega gengur að fá það. Það bendir ekki á, að fólkið vanti atvinnu. Aftur hefi jeg ekki sjeð, að fólk auglýsi eftir vinnu, og bendir það í sömu átt. Þess hefi jeg líka orðið var, að ef boðið er út landsstarf, sýslan eða embætti, þá eru margir um boðið. Það sýnist svo, sem þangað sæki klárinn, sem hann er kvaldastur. Bæði hjer og norðanlands er fjöldi fólks, er virðist vera sólskinsmegin í lífinu. Hjá því er nóg um eyðslu og óþarfa, fordild og hjegómaskap á þessum alvarlegu tímum. Annaðhvort er það af því, að það er efnað og kvíðir engu, eða »flýtur sofandi að feigðarósi«. Og síst vildi jeg, að Alþingi gerði sitt til að glæða þann hugsunarhátt.

Aftur veit jeg, að fjöldi fólks býr í skugganum, og að því verður að hlynna, ekki með fjegjöfum, heldur láta það vinna fyrir nauðsynjum sínum. Embættismennirnir vinna fyrir kaupi sínu, og það er því sanngjarnt, að kaup þeirra sje bætt, þegar ástæða er til. Ef atvinnuleysi verður, verður landssjóður að taka lán til að leggja í eitthvert nauðsynjafyrirtæki og veita verkalýðnum atvinnu við það.

Jeg vil hallast að tillögunni frá í gær, um að vísa málinu til bjargráðanefndar. Hennar starf er að gera bjargráðatill. Og þetta er bjargráð.

Verkefni nefndarinnar hvað þetta frv. snertir verður því tvent.

Í fyrsta lagi á hún að draga úr útgjöldunum í frv. stjórnarinnar til þeirra manna, sem síst þurfa stuðnings við, reyna að finna sem sanngjarnastan meðalveg milli þeirra, sem þurfa og ekki þurfa. Hvort það verður kallað hjálp eða uppbót læt jeg mig engu skifta.

Og í öðru lagi verður nefndin að gera till. um ráðstafanir til þess að bæta úr væntanlegum atvinnuskorti, ef svo skyldi fara, að til þeirra ráða yrði að grípa, að landið beittist fyrir einhverskonar atvinnuframkvæmdum.