08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Þetta mál, sem bjargráðanefnd Ed. hefir fjallað um, er orðið svo þekt hjer á þingi, að eigi er þörf langrar innleiðsluræðu eða útskýringar.

Það lá fyrir síðasta þingi, og var þá mikið rætt, og svo var það mikið rætt nú í háttv. Nd., og auk þessa er, frá almennu sjónarmiði, gerð grein fyrir því í áliti nefndarinnar.

Það er svo einfalt og augljóst mál, að allir, er hafa föst laun, sem greidd eru með peningum og ákveðin fyrir stríðið, verða miklu harðara úti en aðrir, að það þarf engrar útskýringar. Það sjá allir, sem sjá vilja. Það er líka svo auðskilið fyrir hvern mann, að starfsmenn þjóðarinnar eiga, eins og starfsmenn fjelaga, einstakra stofnana eða manna, rjettmæta kröfu á því, að þeir eigi við sæmileg kjör að búa, og að laun þeirra sjeu bætt vegna dýrtíðarinnar, að það þarf ekki útskýringar. Og jeg er sannfærður um það, að alþýða manna hlýtur að skilja það, að það er ekki annað en fylsta rjettlæti, að vinnuveitendur, hvort sem það er landssjóður eða einstakir menn, bæti starfsmönum sínum verðfall peninganna, eða með öðrum orðum taki tillit til dýrtíðarinnar.

Jeg ætla ekki að eyða orðum í að rekja nál.; býst við, að allir háttv. þingdm. hafl kynt sjer það. Þær almennu ástæður, sem þar eru tilfærðar, eru svo augljósar, að allir hljóta að sjá, að málið hefir við rök að styðjast. Jeg mun því ekki fara fleirum orðum um það, frá almennu sjónarmiði, fyr en þá ef mótmæli koma fram.

Nefndinni kom saman um, að eftir öllum ástæðum hefði síðasta þing, aukaþingið í vetur, farið mjög nærri sanni í meðferð sinni á þessu máli, þar sem það hefði reynt að sýna embættismönnum sanngirni, með því að veita þeim dýrtíðaruppbótina, en þó um leið tekið tillit til þess, hve þjóðin er fátæk og illar ástæður allar nú. Það virðist því, að þingið hafi rammað þar á rjettan stig með tilliti til hvorstveggja.

En það er ekki nema eðlilegt, að embættismennirnir verði varir við dýrtíðina, eins og aðrir, þrátt fyrir uppbótina. Það væri ekki heldur rjettlátt gagnvart öðrum að bæta þeim upp að fullu hnekki þann, er af ástandinu leiðir. Það er ekki heldur líkt því, að farið sje fram á það í frv. stjórnarinnar, og þá því síður í frv. þessu, sem nú liggur fyrir.

Meiri hluti nefndarinnar, 4 af 5, varð sammála um, að frv. þetta færi það skemsta, sem hægt er að fara í máli þessu.

Meiri hlutinn áleit, meira að segja, að frv. færi ofskamt, og vildi helst breyta því í sama horf og það kom frá stjórninni. En af tilhliðrun við háttv. Nd. þorði hann hvorki nje vildi ríða á tæpasta vaðið og gera svo mikla breytingu, því að betri er hálfur skaði en allur og betra er, að frv. fái að ganga fram, þótt ekki fari það nógu langt, heldur en að þingið yrði fyrir þeim vansa að fella mál þetta, sem er bæði rjettlátt og mikilvægt.

Í till. nefndarinnar er ýmislegt, sem fer fult svo langt í sparnaðaráttina og frv. gerir, en aftur á móti er sumstaðar dýpra tekið í árinni að því er útgjöldin snertir, og miðar það í þá átt, að sanngjarnari verði uppbótin og ekki eins stór stökk eins og eru í frv.

Áður en jeg fer út í einstakar till. nefndarinnar, vil jeg benda á villu, sem er efst á bls. 1392 í A-deild. Þar stendur, að 10. og 11. brtt. nefndarinnar eigi við 3. og 4. gr., er verði 2. gr., en á að vera: er verða 2. og 3. gr. Þetta er að eins skökk tilvitnun, sem laga þarf.

Þá er önnur villa á sömu bls. í 11. línu að ofan. Þar stendur: »sem var hærra launaður«, en á að vera: sem var lægra launaður.

Fyrstu 2 brtt. þurfa ekki skýringar við. 1. brtt. fer fram á að fella niður orð, sem óþörf eru. Það eru orðin »að muna« í 1. málsgr. 1. gr. 2. brtt. fer fram á að bæta aftan við 1. tölulið 1. gr. tilvitnun í 4. gr. Er það gert til skýringar, en getur annars ekki nein breyting talist.

Brtt. 3 á líka við 1. gr. Hún er talsverð efnisbreyting og fer fram á, að slept verði við úthlutun dýrtíðaruppbótar þeim mönnum, sem nefndir eru í 18. gr. fjárlaganna. Nefndinni virtist það ekki skylda að bæta þeim mönnum upp, sem annaðhvort njóta styrks eða fá eftirlaun, því að hvorugt er veitt sem starfslaun. Það færi því fram úr »principi« þessara laga, sem er að uppfylla skyldur, að veita þessu fólki dýrtíðaruppbót. Annars mun nefndin ekki gera þetta atriði að neinu kappsmáli.

Þá er 4. brtt. Hún leggur til, að bætt verði við 4. tölul. 1. gr. athugasemdum presta. Athugasemd þessi hefir talsverða fjárhagslega þýðingu, bæði fyrir þá og landssjóð. Hún fer fram á, að frá dýrtíðaruppbót presta dragist sami hundraðshluti af afgjaldi kirkjujarða, sem metið er til peninga upp í laun þeirra, eins og dýrtíðaruppbót þeirra er reiknuð eftir.

Viðaukatill. þessi stendur aftur í nánu sambandi við brtt. 5, við 6. lið 1. gr. 2. málsgr., sem nefndin leggur til að falli burt.

Nú eru prestarnir næstum einu launamennirnir, sem nokkra framleiðslu hafa, þar sem þeim eru látnar í tje góðar jarðir, og þær jarðir eru oft oflágt metnar til afgjalds. En slíkt verður auðvitað ekki tekið með í reikninginn hjer. Að líkindum stafar þetta lága mat af því, að matsmenn hafa verið í góðum kunningsskap við þá, sem metið er hjá, því að enginn vill missa embættismann sinn úr sveitinni. Það virðist því undarleg staðhæfing, að alþýðan geti ekki þolað það, að sæmilega og rjettlátlega sje við embættismennina gert.

En þótt jarðir þessar hafi ekki verið metnar oflágt í upphafi, þá er þess að gæta, að þær hafa hækkað í verði síðan metið var. Setjum nú svo, að jörð hafi verið metin til 500 kr. afgjalds áður, en sökum þess, að jörðin stígur í verði og vegna verðfalls peninganna, má segja, að afgjaldið sje nú orðið ? lægra en það var áður, eða ekki nema 200 kr. Það er auðskilið, að jarðirnar stíga í verði, þar sem hægt er að hafa á þeim sömu framleiðslu og áður, en sú framleiðsla er orðin meir en tvöfalt arðvænlegri. Tökum t. d. jörð, sem getur framfleytt 200 ám; áður voru þær 15 króna virði hver, en nú 40 króna virði. Þetta er ákaflega einfalt og auðskilið.

Þessar eru þá ástæðurnar fyrir aths., að þar sem hlunnindi þau, er þeir hafa af ábýlisjörðum sínum, hafa vaxið meir en það, sem dýrtíðaruppbót nemur af þeim hluta launanna, sem afgjaldið nemur, þá þykir ekki rjett að veita þeim dýrtíðaruppbót úr landssjóði af þeirri upphæð.

Vona jeg, að allir sjái, að full sanngirni mælir með þessu.

Þá er 5. brtt., við 1. gr., að fella niður það ákvæði, að þeim, sem framleiðslu hafi, svo að nokkru verulegu nemi, greiðist engin dýrtíðaruppbót. Ástæðan fyrir þeirri breytingu er sú, að algerlega er ómögulegt að framfylgja ákvæðinu nema af handahófi, og ekki mundi það vera rjettilega gert nema í tíunda hverju tilfelli, og ekki nema einn af hundraði mundi vera ánægður með það eftir á.

Jeg lít líka svo á, að landssjóði komi það ekkert við, þótt sýslunarmenn hans hafi með dugnaði og framsýni komist í álnir og geti rekið einhverja framleiðslu, meðan þeir vanrækja ekki skyldustörf sín hennar vegna.

Að minsta kosti mundi engin atvinnuveitandi taka tillit til þess.

Og hver einasti húsbóndi mundi frekar kjósa þann vinnumann, sem kann til verka og er vel fataður og heldur saman reitum sínum, heldur en hinn, sem öllu sóar jafnóðum og ekki á spjör á sig. Það er líka alkunna, að verslanir taka snauða menn, til að byrja með, í þjónustu sína, en eftir því, sem þeim mönnum eykst fje fyrir sparsemi sína og dugnað, eru laun þeirra hækkuð og ekki dregin af þeim dýrtíðaruppbót, þótt þeir hafi orðið einhverju úr að spila. Yfirmenn þeirra munu miklu fremur gleðjast yfir því, að þeir sýni það í verkinu, að þeir hafi átt góða húsbændur.

Nú mætti það ósvinna heita, ef hægt væri að segja um þingið, að það gerði ver við verkamenn landsins en þolanlegur húsbóndi við þjóna sína. Auk alls þessa er það ekki til neins að setja það í lög, sem ekki er hægt að framfylgja. Jeg vona því, að háttv. þingdm. hafi sannfærst um, að nefndin hefir sjeð rjett í þessu atriði.

Þá er 6. brtt., við 1. gr., að í stað 3500 kr. komi 4000 kr. Sú breyting kemur fram við breytinguna við 3. gr., sem verður 2. gr. Sama er að segja um 7. brtt., við 1. gr., að í stað 2000 kr. komi 2450. Báðar þessar breytingar miða að því að koma í veg fyrir stökk það, sem er í útreikningi uppbótarinnar í frv. Eftir þeim útreikningi kæmust sumir þeir, er enga uppbót fá, niður fyrir þá, er lægra eru launaðir og fá dýrtíðaruppbót. En slíkt er ógerningur, ef gengið er út frá því, að launahæðirnar sjeu upphaflega hlutfallslega rjettar. Nefndinni þótti það líka oflágt að miða við 2000 kr. hjá einhleypum mönnum, en 3500 kr. hjá hinum, þannig að þeir launamenn fengju enga uppbót.

Þá er 9. brtt., að fella burt 2. gr. frv. Nefndinni virtist sú gr. óþörf og sá ekki, hvaða rjettlæti gæti í henni falist, því að sje maður skipaður í embætti á eigin ábyrgð, þá ber honum auðvitað dýrtíðaruppbótin, en sje maður ráðinn eftir samningi og gegni embættinu á ábyrgð þess, er embættið á að hafa, þá er öðru máli að gegna, og gæti það leitt til málaferla, ef löggjöfin færi að grípa inn í slíka frjálsa samninga.

Þá kemur að 10. brtt. nefndarinnar við 3. gr. frv.

Meiri hluti nefndarinnar er að vísu ekki alls kostar ánægður með hana, en vildi þó ekki breyta þeirri grein meir, vegna tilhliðrunar við háttv. Nd. Breytingin er líka til allmikilla bóta og kemur í veg fyrir hið óeðlilega stökk, sem kemur fram, ef farið er eftir frv.

Lágmarkið er hið sama, 1500 kr., og veitast af þeirri upphæð 40% í uppbót. Síðan fer uppbótin lækkandi um 1¼% við hverjar 100 kr., sem launahæðin hækkar um, þar til launahæðin er kominn upp í 4600 kr. Af þeirri upphæð veitist 1¼%. Síðan engin uppbót af hærri launum.

Aftur á móti er hámarkið í frv. 3500 kr., sem 10% veitist af, en síðan ekkert af hærri upphæð. Það þótti nefndinni altof stórt stökk, og er komið í veg fyrir það með brtt.

Jeg verð því að álíta, að útreikningur nefndarinnar sje í alla staði heppilegri og rjettlátari.

Í sambandi við það, að nefndin vildi miðla málum við háttv. Nd., að hækka ekki dýrtíðaruppbótina úr 40% upp í 50% fyrir þá, sem lægst eru launaðir, leyfði nefndin sjer að bera þá brtt. fram, að þeir menn, er ættu að sjá fyrir framfæringum, börnum eða gamalmennum, fengju 70 kr. með hverjum, í stað 50 kr., sem í frv. er ákveðið. Nefndin vildi með því bæta það ofurlítið upp, hve lág dýrtíðaruppbótin er að hennar dómi. En þegar menn gæta að ástandinu, sem nú er, munu víst flestir sjá, að þessi styrkur er ekki nema örlítill hluti, svo sem ? hluti, af því, sem þarf til að framfæra þá, er hjer eiga hlut að máli. Nefndinni virtist eigi fært að fara skemra, áleit þetta sanngjarnt. Því að það er áreiðanlegt, að fjölskyldumenn verða harðast úti. Nefndin áleit fremur rjett að ljetta undir með þeim heldur en með einhleypum mönnum, jafnvel þótt jeg sje fyrir mitt leyti mótfallinn því, að þeir sjeu sjer í flokki. Þeir eiga eins mikla heimtingu á uppbót, ef á rjettinn er litið. En þar sem fjeleysi landssjóðs er annars vegar, var sá kosturinn tekinn að líta fremur á þörf manna en rjettmætar kröfur.

12. brtt. nefndarinnar fer fram á að bæta inn í frv. nýrri grein, er heimilar landsstjórninni að verja eftir tillögum póstmeistara alt að 20 þús. kr. á ári úr landssjóði til dýrtíðaruppbótar handa póstum. Liður þessi var kominn inn í fjárlagafrv. En nefndinni virtist hann fremur eiga heima hjer. Og að þessi upphæð er hærri en upphæðin í fjárlagafrv. stafar af því, að í fjárlagafrv. var póstum auðvitað ekki veitt uppbótin fyrir árið 1917, heldur að eins árin 1918 og 1919. Þótti því rjettast að taka liðinn alveg út úr fjárlagafrv. Ef nokkrir þurfa uppbótar með, þá eru það póstarnir. Ef dýrt er að lifa fyrir þá, er sitja heima, þá verður þeim margfalt dýrara, sem þurfa að ferðast. Allur ferðakostnaður hefir hækkað gífurlegar í verði en flest annað, bæði hey, hestar og greiðalaun. Fáist þessi uppbót ekki, myndi það verða til þess, að fæstir póstar myndu fást til að halda áfram starfi sínu. Ef til vill mætti segja, að póstar sjeu ekki embættismenn, heldur sjeu laun þeirra að eins samningsatriði milli þeirra og póststjórnarinnar. Geti því póststjórnin boðið stöðurnar upp. Jeg hygg það varhugavert. Póststarfið er svo þýðingarmikið og ábyrgðarmikið starf, að vart mun rjett að taka undirboði á því — taka óvana menn með óvana hesta, í stað æfðra manna, er sýnt hafa með skyldurækni sinni og dugnaði, að þeir eru alls góðs maklegir.

Einnig ber á það að líta, að margir þeirra eru ófærir til annarar vinnu, Jeg get nefnt Vesturlandspóstinn sem dæmi, til sönnunar þessu. Jeg hygg, að hann gæti ekki fengið aðra vinnu, en á hinn bóginn er hann álitinn mjög dugandi póstur.

Við að gegna einhverjum sjerstökum starfa geta menn orðið ónýtir til annara starfa. Þetta þarf alþýða manna að láta sjer skiljast. Embættismenn þurfa oftast að kosta sig í 10—12 ár við nám sitt. Ef þeir eru svo kvaldir í embætti sínu og verða að flæmast úr því, geta þeir verið orðnir ófærir til annara starfa, er þeir hefðu getað tekið að sjer áður.

Alþýðumenn ættu því að sýna embættismönnum sínum fulla sæmd og sanngirni í orði og verki.

13. og síðasta brtt. nefndarinnar fer fram á að fella burt 8. grein frv. Nefndin áleit hana óþarfa. Í 1. grein stendur sem sje: »Fyrst um sinn, og meðan verðhækkun sú, sem nú er á lífsnauðsynjum, stendur, eða breytist eigi að verulegum mun, þannig, að lífsnauðsynjar lækki að mun í verði, veitir« o. s. frv. Þarna er tekið fram, að lögin falli úr gildi, þegar ástandið breytist til batnaðar. Og óþarfi er að taka það fram, að lögin skuli falla úr gildi þegar næsta reglulegt Alþingi kemur saman, verði ástandið ekki orðið betra. — Þegar þingið kemur saman, getur það breytt lögunum, lækkað uppbótina, ef dýrtíðin rjenar, eða hækkað hana, ef dýrtíðin eykst og landssjóður hefir efni á því.