27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Magnús Torfason:

Hæstv. forsætisráðherra gat þess, að nefndin hefði átt að snúa sjer til borgarstjórans með mál þetta, og hefir háttv. framsm. (K. D.) lýst yfir því, að hún hafi ekki gert það.

Jeg lít svo á, að nefndin hafi farið þar rjett að. Því að sje svo, að einstakir menn þurfi að hafa hönd í bagga með þeim málum, er nefndir þingsins fjalla um, þá ber þeim að snúa sjer til nefndanna, en ekki nefndunum til þeirra.

Að því er snertir 7. brtt., þá reyndi nefndin að synda þar á milli skers og báru, og þar sem henni hefir verið mótmælt úr báðum áttum, er það vottur þess, að það hafi tekist að þræða meðalveginn.

Í 2. gr. frv. stendur, að húsaleigunefnd skuli skera úr, þegar ágreiningur verði milli leigutaka og leigusala. Þótti nefndinni það rjett, að hún hefði sem óbundnastar hendur til að ákveða, hvað rjett væri og hentast í hvert skifti.

Hins vegar þótti nefndinni ekki ráðlegt að breyta lögunum nema hið allra minsta. Leit hún svo á, að húseigandi yrði að hafa brýnar ástæður fyrir hendi, til þess að geta sagt leigutaka upp húsnæði, en þá brýnu þörf er einmitt húsaleigunefnd ætlað að meta.

Annars mun nefndin ekkert hafa á móti því, að þetta atriði verði tekið til nánari athugunar, og mun hún fús á að heyra álit borgarstjóra, ef hann leitar viðtals við hana um þetta mál.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) mintist á eitt atriði úr sveitarstjórnarlögunum. Það ákvæði ræðir að eins um flutning til búsetu, og má svo heita, að það sje dauður bókstafur, því að sjaldnast er hægt að segja um, hvort menn flytja til búsetu eða að eins stuttrar dvalar.