09.07.1918
Neðri deild: 66. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Matthías Ólafsson:

Háttv. flm. (P. O.) kvað fje það, sem farið er fram á að veita í till., ekki mundu nema svo miklu. En hann getur ekkert um það sagt, hve mikið muni kosta að senda menn um alt land til þess að hvetja menn til að setja ekki of mörg hross á. Jeg gæti trúað því, að það þyrfti að senda allmarga menn til þess að sannfæra alla bændur á landinu um það, að rjettara sje fyrir þá að drepa hrossin sin heldur en að setja þau á. Jeg vil helst ekki fást við þær upphæðir, sem jeg veit ekkert hverjar eru. Og jeg skil ekki, að þingið muni nú vilja veita óákveðna upphæð, þar sem það hefir nýlega synjað að veita alveg fastákveðna upphæð að láni til jafnbrýns bjargráðs og þar var farið fram á.

Jeg skal ekkert hafa á móti því, að þingið geri sig hlægilegt enn þá einu sinni. Jeg ætla að koma með brtt. við þetta atriði við næstu umr., og ekki hvað síst til þess að láta þingið bita í skottið á sjálfu sjer, láta það samþykkja að gefa óákveðna upphæð, þvert ofan í það, að það hefir ekki viljað lána ákveðna upphæð í jafnnauðsynlegum tilgangi.

Það er satt, að jeg mæli þetta að nokkru leyti af því, að jeg varð fyrir vonbrigðum í öðru máli. Og það er rjett hjá háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að menn eigi ekki að vaða áfram í villunni, ef þeir hafa rangt fyrir sjer. En jeg ætla ekki að gera ráð fyrir, að nokkur háttv. þingdm. hafi greitt vísvitandi rangt atkv. Jeg býst við því, að sannfæring háttv. þingdm. hafi ráðið, þótt jeg álíti hins vegar þessa sannfæringu ekki rjetta.

Það er sjálfsagt að greiða fyrir því, að menn geti aflað sjer fóðurbætis. En jeg álít ekki neitt að óttast, að svo lítið verði veitt af síld í sumar, að ekki verði ríflegur afgangur, þegar sú sfid, sem leyft er að flytja út, er talin frá. Og þá er sú síld óneitanlega betra fóður heldur en gamla síldin. Hún er án efa orðin skemd. Það er enginn búhnykkur að kaupa gamla og ljelega síld fremur en að kaupa nýveidda síld og greiða um leið fyrir atvinnuvegi, sem á í vök að verjast. Auðvitað yrði það að greiða fyrir honum, því að ekki er víst, að síldin seljist öll, og yrði hin nýja síld þá að geymast og liggja ef til vill undir skemdum.