12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Hákon Kristófersson:

Jeg gat þess við fyrstu umr. þessa máls, að jeg teldi síðustu málsgrein till. á þgskj. 463 varhugaverða.

Nú hefir bjargráðanefnd komið fram með brtt. við þessa till., á þgskj. 480, þar sem það er tekið fram, að stjórninni skuli heimilað nauðsynlegt fje til framkvæmda á málinu.

Eins og 1. og 2. liður brtt. á þgskj. 480 liggja fyrir, sje jeg ekki ástæðu til annars en að greiða brtt. bjargráðanefndar atkvæði mitt. En þetta geri jeg með það fyrir augum, að þótt stjórninni heimilist fje til þess að framkvæma það, sem till. ætlast til, þá noti hún ekki þessa heimild til þess að senda launaða erindreka út um bygðir landsins, til þess að prjedika fyrir bændum gætilegan ásetning eða fækkun á hrossum. Jeg álít, að slíkt verði að vera á valdi sveitarstjórnanna, en ekki tilkvaddra manna. En eftir síðustu málsgrein till. sje jeg ekki betur en að stjórnin hafi heimild til þess að verja fje til fundarhalda, meðal annars. Því er jeg ekki mótfallinn; tel miklu fremur sjálfsagt, að stjórnin hafi heimild til bráðabirgðafjárframlaga til kaupa á fóðurbæti, svo sem síld eða síldarmjöli.

Háttv. frsm. bjargráðanefndar (S. St.) gat þess, að æskilegt væri að senda menn út um landið, sem brýndu fyrir mönnum að fækka hrossum að miklum mun. En eins og jeg hefi áður getið, þá ætlast jeg ekki til þess með atkvæði mínu, að fje sje varið til slíkra hluta. En á það vil jeg leggja áherslu, að stjórnin geri sitt ítrasta til útvegunar á fóðurbæti, og að framkvæmdir verði gerðar í þá átt þegar á þessu sumri, því að öllum má vera ljóst, til hvílíkra vandræða horfir með grassprettu. Og það vil jeg taka fram, að láti hæstv. stjórn fóðurbirgðamálið afskiftalaust að þessu sinni, þá sýni hún það ljóslega, að hún er algerlega óhæf til þess að stjórna landinu á vandræðatímum.

Jeg hefi svo ekki meira að segja, en þetta vildi jeg sagt hafa, af því að jeg kann betur við brtt. bjargráðanefndar heldur en aðaltillöguna.