04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (1689)

107. mál, verðlagsnefndir

Pjetur Þórðarson:

Mjer finst þeir hv. þm., er talað hafa, hafa gert lítið úr því, er hv. framsm. (S. St.) sagði, að það, að skipuð væri nefnd fyrir eitt sveitarfjelag, útilokaði það ekki, að ein og sama nefndin væri fyrir stærra svæði. Eins er og það, að það sem hv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að í till. vantaði ákvæði, er kæmi í veg fyrir glundroða, þá vil jeg gera miklu minna úr því en hann, því að jeg álít, að það geti komið svo margt til greina, er bæti úr þessu, og ákveðið verði í reglugerð, er stjórnarráðið setur um þetta. Og svo er í 3. gr. mælt svo fyrir, að ef árekstur verður, þá er hægt að skjóta málunum undir úrskurð stjórnarrásins. Jeg ætlast til, að með þessu verði hægt að hafa fullkomið vald á þessum hugsanlega glundroða, og þótt hann yrði, þá get jeg ekki hugsað mjer, að hann valdi slíkum ónotum, sem hv. þm. (E. A.) heldur. Jeg get ekki hugsað mjer, að það verði svo alment, sem þessi heimild verði notuð, og jafnvel álít jeg, að eftir 1. gr. yrði stjórnarráðið að synja mönnum um heimildina, ef það álítur hana óþarfa, og að hún ef til vill geri ilt verra. Jeg get ekki felt mig við, að það þurfi að gera ítarlegri lög en þetta, þar sem bæta má úr reglugerð, sem stjórnarráðið semur.