04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (1694)

107. mál, verðlagsnefndir

Pétur Jónsson:

Jeg hygg að ekki taki því að ræða frekar um þetta frv.; mjer er nokkurn veginn sama um, hvernig því reiðir af. En hitt þykir mjer um vert, er kom fram hjá nokkrum hv. þm., að þeir geta ekki tínt annað til mótmæla frv. en ýmislegt smælki, er ekki kemur málinu við. Svo var um hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.). Jeg skal ekki eltast við það, er hann sagði. Jeg ætla ekki heldur að metast við hann um heilbrigða skynsemi; jeg veit, að hv. þm. ætlar okkur nefndarmenn ekki þeim mun meiri heimskingja en sig.

Hv. þm. (B. Sv.) hefir litið á nokkur smáatriði málsins. Aðalatriðið er það, að sú nefnd, sem skipuð yrði í Reykjavík, starfaði að eins á því svæði; jeg gat þess að eins sem míns álits, að skeð gæti, að verksvið hennar mætti ná lengra. Sú nefnd færi auðvitað ekki að skifta sjer af verðlagi á vörum, sem ganga kaupum og sölum annarsstaðar á landinu. Þessi er munurinn á sjerstakri nefnd fyrir bæinn og núverandi nefnd. En annað mál er það, hvort þetta er galli eða kostur. Sumir telja þetta galla, aðrir kost, og skal jeg láta það liggja á milli hluta. En aðrir vegir eru heppilegri til, til að hlutast um, hvaða verði menn austan úr sýslum selja smjör sitt eða kartöflur, heldur en að hafa verðlagsnefnd, er allir gera sjer leik að að fara í kringum.

Í öðru lagi eru kringumstæður breyttar að því leyti, að verðlagsnefnd þarf ekki til þess að skifta sjer af sölu á aðfluttum lífsnauðsynjum úti um land, þar sem landsverslunin hefir það starf með höndum.

En er nefndin hugleiddi það, að rjett væri, að Reykjavík fengi heimild til að skipa verðlagsnefnd í bænum, fanst henni ekkert því til fyrirstöðu, að hinir kaupstaðirnir fengju sömu heimild, ef til þess kæmi, að þeir óskuðu að nota hana. Nefndin áleit, að það gæti ekki vakið neinn glundroða, þar sein kaupstaðirnir eru svo langt hver frá öðrum. Auðvitað gæti það vakið glundroða að hafa sína verðlagsnefndina á hvorum staðnum, Reykjavík og Hafnarfirði, en þá væri hægur hjá fyrir stjórnina að gæta þess, að svo yrði ekki. Enda sje jeg ekki, hvað gæti vakað fyrir þeim tveim nefndum, ef þær hefðu ósamræmi sín á milli. Það yrði til óhagnaðar fyrir hvorn kaupstaðinn um sig.

Jeg skal svo ekki fara frekari orðum um málið; jeg vildi að eins benda á þessi aðalatriði, en stendur nokkurn veginn á sama um, hvort frv. stendur eða fellur.