15.06.1918
Neðri deild: 50. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í C-deild Alþingistíðinda. (2102)

96. mál, verðlag á vörum

Forsætisráðherra (J.M.):

Hvað snertir sjálft frv., sem fyrir liggur, þá gefur hvorki það nje framsagan tilefni til frekari umræðu að sinni. Jeg get ekki vel um það sagt, hvernig því muni tekið af stjórninni, því að það heyrir ekki undir minn verkahring. En fyrst hæstv. atvinnumálaráðherra er ekki viðstaddur, þá finst mjer skylt að leggja til, að málið verði athugað í hv. bjargráðanefnd. Hún getur aflað sjer skýrslna um það, hvað verðlagsnefndin hefir gert frá því hún var sett á laggirnar. Jeg veit, að hún hefir unnið miklu meira gagn en hv. flm. (P.O.) vill telja mönnum trú um. En þær athugas. og rannsóknir er hægra að gera í nefnd en óundirbúið í þingsalnum. Jeg get ekkert um það sagt, hvernig hagað hefir verið borgun til nefndarinnar, enda mun þingmönnum vera innan handar að leita sjer upplýsinga um það.

Hins verður að geta, að mjer finst það ekki nema sjálfsögð kurteisisskylda að hver sá þingmaður, sem ætlar sjer að ráðast á stjórnina í sambandi við einstaka menn, sem hún hefir eða hefir haft í þjónustu sinni, aðvari viðkomandi ráðherra um, að þessi árás sje í vændum. Það er ekki rjett að koma með það óviðbúið. Stjórnin verður að hafa færi á að verja þá menn, sem hún hefir látið vinna fyrir sig, ef þeir verða fyrir ómaklegum árásum. Jeg segi ekkert um það, hvort nokkur rjettmæt ástæða er til að gera athugasemd um umgetna reikninga, en það er vægast sagt illa viðeigandi að koma með það fyrirvaralaust inn í svona óskylt mál. Mig furðar á því, að hv. flm. (P. O.), sem er mjer kunnur að því að vera mjög vandaður maður, skuli hafa farið þannig í þetta atriði.

Og ómaklega verð jeg að telja þessa árás á nafngreindan mann, sem jeg tel hafa unnið mikið gagn landinu, en getur eigi borið hjer hönd fyrir höfuð sjer. (P. O.: Jeg hefi alls ekkert um það sagt). Það þýðir ekkert að afsaka sig með því. Svona ummæli er ekki hægt að taka öðruvísi en sem árás á manninn. En mjer er þetta reikningsmál gersamlega ókunnugt, auðsjáanlega miklu ókunnugra en hv. flm. (P. O.). Það heyrir ekki undir mína stjórnardeild, og jeg geri ráð fyrir, að viðkomandi ráðherra athugi það síðar.